26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

35. mál, rannsókn á innsiglingu að Kaldrananesi og víðar

Hákon Kristófersson:

Að því er snertir seinni lið till. get jeg verið samdóma hv. þm. Stranda (M. P.), að því er kemur til nauðsynjarinnar á því, að leiðir sjeu mældar upp. Eins og kunnugt er, liggur Barðastrandarhreppur við Breiðafjörð norðanverðan. Þangað eru allar samgöngur erfiðar nema á sjó. En skilyrðið fyrir því, að þær samgöngubætur geti komist á, er að skip sjeu fáanleg til þess að koma þangað, en það má því að eins verða, að innsiglingin sje mæld, því annars er ekki hægt að fá nema minstu skip til að koma þangað. Að vísu hafa komið þangað skip, eins og t. d. Varanger og Geraldine. Það er því eindregin ósk hreppsbúa að fá leiðina frá Flatey til Hagabótar mælda. Þar sem eins hagar til og hjer er um að ræða, held jeg því fram, að það sje lífsskilyrði að hafa sem allra bestar samgöngur á sjó. Jeg ætla að taka til dæmis, að síðasta Alþingi samþ. að láta stimpla kjöt. Til þess að ráðist væri í að byggja sláturhús hvar sem er á landinu, mun óhætt mega fullyrða, að það sje fyrsta skilyrðið, að gott sje að koma kjötinu frá sjer. Eins og samgöngum er nú háttað við Barðastrandarhrepp, má telja það miklum erfiðleikum bundið, og hreppurinn því útilokaður frá notum þeim, er leiðir af kjötstimpluninni, svo framarlega sem ekki er hægt að fá skip til að flytja það. Frá Flatey til Hagabótar eru tvær leiðir færar, önnur að vestan, en hin að sunnan. Hvort mæla ætti báðar leiðir eða að eins aðra skal jeg ekkert um segja. Best væri, að sá, sem mælir, skeri úr því. Að jeg hefi óskað eftir, að leiðin frá Flatey væri mæld, en gengið fram hjá þeirri leiðinni, er farin er inn Breiðafjörð til Hagabótar, þegar að vestan er komið, kemur af því, að sú leiðin er torveldari, enda liggur beinna við, þá er skip koma sunnan frá. En eins og jeg hefi þegar tekið fram, legg jeg áherslu á það, að þær leiðir sjeu tryggilegar fyrir hvert skip að fara um, er farnar verða bæði frá og til Hagabótar á hvern veg er skipum er hagkvæmast að fara.

Jeg finn ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta, en vonast til, að háttv. deild lofi þessu nauðsynjamáli fram að ganga, og þá er það hlutverk stjórnarinnar að koma því í framkvæmd, og vonast jeg til, að ekki líði mörg ár þangað til hún lætur gera það.