26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Þó að fjárveitinganefndin hafi haft nauman tíma til þess að rannsaka ýms málefni, er fyrir henni lágu, þá hefir samt orðið sú launin á, að hún hefir leyft sjer að koma fram með þessa þingsályktunartillögu, og vil jeg því leyfa mjer að gera í örfáum orðum grein fyrir afstöðu nefndarinnar, og þá einkum til þeirra atriða, er þingsályktunartillagan fjallar um.

Jeg þarf þó ekki að fara mörgum orðum um þessa liði. Skal að eins geta þess sem byrjunarskýringar, að þegar fjárveitinganefndin tók til starfa, þá kom það til tals, hvort nefndin ætti að sinna nokkrum fjárbeiðnum, eða hvort hún ætti að slá stóru striki yfir alt og neiti algerlega að starfa að því nú að leggja til um nýjar fjárveitingar. Út af því komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að gersamlega væri óverjandi, úr því að þingið er saman komið, að ganga að öllu leyti fram hjá öllum erindum, er henni voru fengin í hendur.

Kom nefndinni þá saman um, að ef hún ætti að starfa nokkuð, þá bæri henni fyrst og fremst að leiðrjetta það, sem miður hefði tekist á síðasta þingi. annaðhvort fyrir gleymsku eða þá misskilning nefndarinnar eða alls þingsins. Og þá þar næst að taka til athugunar þau atriði, er stjórnin sjálf hafði beint til hennar með sjerstökum meðmælum. Og af þessum toga eru þá liðir þingsályktunartillögunnar spunnir.

Hv. deild mun kunnugt um það, að á síðasta þingi var samþykt, samkvæmt fjárlagafrv. stjórnarinnar, 12 þús. kr. fjárveiting til væntanlegs sendiherra í Kaupmannahöfn, ásamt 2 þús. til húsaleigu og 2 þús. til risnu.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hefir tjáð nefndinni, að eftir það, að stjórnin ákvað þessar tölur 1919, hafi ástæðurnar svo mikið breyst, að nú geti ekki komið til mála, að sendiherrann geti komist af með þessar fjárhæðir.

Þetta fanst nefndinni að hefði við fullkomin rök að styðjast, og leggur hún því til, að þetta sje lagfært. En annars vænti jeg, bæði um þennan lið og þann næsta, að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) skýri deildinni nánar frá því, sem hann hefir sagt nefndinni frá.

Þá er næst að minnast á fjárhæðina. Hv. þm. mun sjálfsagt verða að spyrja, hvers vegna nefndin komi með þessa upphæð, 5400 kr. Og er þá um þetta að segja, að nefndin taldi ekki ósanngjarnt, að þessi maður fengi dýrtíðaruppbót, líkt og þeir, sem í launalögunum standa. En hæsta dýrtíðaruppbót er 5400 kr., og yrðu þá launin samtals 17400 kr. Og víst má segja það, að ef þessi breyting kæmist ekki á þessi launakjör, þá er varla hægt að gera ráð fyrir því, að hæfur maður fengist til þessarar stöðu; líklegt, að embættið yrði að vera óskipað, ef þessar bætur verða ekki gerðar, og jafnvel vafasamt, hvort þessi fjárviðbót nægir. Enda hafði hæstv. forsætisráðh. (J. M.) stungið upp á meiri viðbót en nefndin nú gerir.

Þá er 2. liðurinn til athugunar, sem jeg ætla að fara um nokkrum orðum.

Eins og hv. deildarmönnum er kunnugt, þá er í 7. gr. sambandslaganna tekið þannig til orða:

„Í utanríkisstjórnarráðinu skal skipa eftir ósk íslensku stjórnarinnar og í samráði við hana trúnaðarmann, er hafi þekkingu á íslenskum högum, til þess að starfa að íslenskum málum.

Nú er einhversstaðar enginn sendiherra eða sendiræðismaður, og skal þá skipa hann eftir ósk íslensku stjórnarinnar og í samráði við hana, enda greiði Ísland kostnaðinn. Með sömu skilyrðum skal skipa ráðunauta með þekkingu á íslenskum högum við sendisveitir og ræðismannaembætti þau, sem nú eru. Ef stjórn Íslands kýs að senda úr landi sendimenn á sinn kostnað, til þess að semja um sjerstök íslensk málefni, má það verða í samráði við utanríkisráðherra.“

Nú hefir hæstv. forsætisráðh. (J. M.) skýrt oss frá, að komið geti til mála að nota þetta ákvæði hvað Miðjarðarhafslöndin snertir. Fjárveitinganefnd er eindregið á því, að það muni verða hinn mesti búhnykkur, ef landið ætti þar talsmann, og vill því eindregið mæla með því, að stjórninni sje heimiluð fjárhæð til þess að nota í þessu skyni. Þeim peningum mundi áreiðanlega ekki vera kastað á glæ, heldur mundu þeir margfaldlega borga sig. Og taka má það fram, að nefndin er því fúsari, sem henni dylst það ekki, að hjer er um óverulega fjárupphæð að ræða, þegar hún er borin saman við það, hve starfið er þýðingarmikið, sem slíkur erindreki hefði með höndum.

Hjer er um mjög mikilsvert atriði að ræða fyrir annan af aðalatvinnuvegum vorum, og geta allir getið því nærri, að ekki þarf væntanlegur ræðismaður í Miðjarðarhafslöndunum að gera mikið eða hafa mikil áhrif til þess, að sú fjárhæð, sem til hans er kostað, komi margföld aftur inn í landið.

Þá skal jeg geta þess, að 2. aðalliðurinn hefir verið tekinn aftur og þess óskað, að brtt. á þgskj. 121 verði ein borin upp sem aðaltillaga.

Þá sný jeg mjer að 3. liðnum, og má þar þess geta, að það mun einungis vera af vangá síðasta þings, að maður sá, er hjer er við átt, fjekk ekki dýrtíðaruppbót eða tilkall til hennar. Og á þá auðvitað fjárveitinganefnd síðasta þings aðallega sök á því. Er því hennar að reyna nú að bæta úr skák. Hjer er um mann að ræða, sem ekki er á föstum launum, samkvæmt launalögum, heldur á fjárlagalaunum. En með þesskonar menn var þannig farið á síðasta þingi, að þeim var flestum veitt dýrtíðaruppbót með því að hækka fjárveitinguna til þeirra í fjárlögunum. Nú hefir gleymst að gera nokkra slíka ráðstöfun viðvíkjandi þessum manni, og telur nefndin það illa farið, og vill hún nú bæta það upp með því að heimila stjórninni að greiða honum dýrtíðaruppbót í samræmi við aðra starfsmenn ríkisins. Skal jeg geta þess, að laun þessa manns eru 3000 kr., og mega allir sjá, að slíkt er ekki nægilegt honum til lífsframfæris, ef dýrtíðaruppbót bætir það ekki upp.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að síðasta liðnum, og snertir hann fje handa Búnaðarsamböndunum og starfsmönnum Búnaðarfjelagsins.

Er hjer líkt ástatt og um það, er jeg gat um hjer næst á undan, að farið hefir fram hjá síðasta þingi að gera ráð fyrir uppbót handa starfsmönnum Búnaðarfjelagsins. Að vísu mætti má ske segja, að Búnaðarfjelaginu hafi verið veitt svo rífleg fjárhæð á síðasta þingi, að það gæti sjálft sjeð um starfsmenn sína, bæði hvað laun og dýrtíðaruppbót snertir. Jú, þetta verður að sjálfsögðu gert, ef þingið neitar hjer nokkru úr að bæta, því auðvitað verða þessir starfsmenn að fá þau laun, er þeir geti lifað af.

En til þessa má segja, að þegar fjárveitinganefnd síðasta þings lagði það til, að þingið veitti upphæð þá til Búnaðarfjelags Íslands, sem í fjárlögum stendur, þá gerði hún alls ekki ráð fyrir, að teknar yrðu af því fje hærri launaupphæðir en til voru teknar í áætlun búnaðarþingsins, gerði ekki ráð fyrir meiri frádrætti frá þeim framkvæmdum, sem þessu fje átti að verja til. Fjárveitinganefndin nú er einnig á þessari skoðun, að þessa fjárhæð megi ekki rýra, og leggur því til, að þingið heimili að veita þessum starfsmönnum uppbót með nýrri fjárveitingu, svo ekki minki fje það, er til framkvæmda á að nota því það mun ekki of mikið samt.

Við þetta er samt það að athuga, að nefndin ætlast ekki til þess, að þessir starfsmenn fái fulla dýrtíðaruppbót af þeim launum, sem Búnaðarfjelagið hefir ákveðið þeim til handa, vegna þess, að þau laun eru ekki miðuð við sama launagrundvöll og þau laun, sem nú fá fulla dýrtíðaruppbót. Og þess vegna ætlast líka nefndin til, að stjórnin ráðstafi þessu á þann veg, að samræmi komist á milli þessara manna og þeirra starfsmanna ríkisins, sem svipuðum störfum hafa að gegna, eða störfum sem heimta líkan undirbúning.

Það virðist líka mjög auðvelt að fá þetta samræmi. Starfsmenn Búnaðarfjelagsins skiftast í tvo flokka, annar með 5000 kr. launum og hinn með 4000 kr. Sá, sem hefir þá 5000 kr., finst nefndinni geta verið hliðstæður þeim starfsmönnum ríkisins, sem hafa 3500 kr. eftir launalögunum, og yrðu þá laun þeirra nú 7700 með dýrtíðaruppbót.

Sá, sem hefir 4000 kr., getur aftur á móti verið hliðstæður þeim, sem hafa 3000 kr. Fá þeir þá 6600 kr. Þó skal það tekið fram, að nefndin áleit, að elsti starfsmaður fjelagsins ætti að teljast með hærri grundvallarlaunum en 3000, og ætti sú viðbót að skoðast sem venjulegar aldursbætur embættismanna.

Annars vill nú svo heppilega til, að formaður fjárveitinganefndar (P. J.) er kominn í stjórnina. Hefir hann fallist á þessa skoðun og þessa útbýtingaraðferð og sett sig vel inn í hana, og má því vænta, að um misskilning verði ekki að ræða, þegar til kasta stjórnarinnar kemur um framkvæmdirnar.

Jeg skal svo að lokum geta þess, að nefndinni þótti það leiðinlegt að láta þetta koma í þingsályktunarformi. En við þessu varð ekki gert, enda hefir þetta sama tíðkast áður, og er þá tilætlunin sú, að stjórnin taki það síðar inn í fjáraukalagafrv.

Um brtt. ætla jeg ekki að tala að svo stöddu, og bíða heldur eftir, hvað flytjandi hennar hefir fram að færa.