26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi í rauninni litlu við að bæta það, sem áður hefir fram komið. Það er rjett, að jeg tjáði fjárveitinganefndinni, að fjárhæð sú, er ætluð væri til sendiherrans, væri of lítil. Og mjer finst hv. nefnd skera viðbótina alt of mjög við neglur sjer, en vera má, að ekki eigi að finna of mjög að þessum sparnaði. Á hinn bóginn tel jeg, að eigi beri að senda erindreka með sendiherranafni, nema hann fái þau laun, að hann þurfi hvorki að vera sjálfum sjer nje landinu til minkunar. Þess vegna er ekki heldur nein furða, þó að þessi hækkunartill. sje komin fram, því eins og háttv. frsm. (M. P.) tók fram, þá eru kringumstæðurnar orðnar talsvert breyttar frá því, sem var þegar þetta var upphaflega fyrirhugað; mun meira, sem til þess þarf, heldur en þá var, og sje jeg því eigi annað en að þeir, sem vilja sendiherrann, verði að greiða atkv. sitt með þessari hækkun.

Um 2. tölul. er ekkert frekara að segja en það, sem hv. frsm. (M. P.) hefir tekið fram. Jeg skal að eins geta þess, að jeg álít ekki rjett að ákveða staðinn, vegna þess, að í sjálfu sjer er heimilt að senda erindreka til annara staða, þótt fyrir sje þar heimakonsúll. Gæti t. d. verið full ástæða til að senda slíkan mann til Spánar.

Það er rjett fram tekið hjá hv. frsm. (M. P.), að það er óheppilegt að láta þetta koma fram í þingsál.till., því að sendimenn í „diplomatiskum“ erindum eru sjaldnast sendir nema eftir lagaheimild. En úr því má bæta síðar. — Um hina aðra liði sje jeg ekki ástæðu að segja neitt.