26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla að minnast hjer lítið eitt á 1. liðinn í till. fjárveitinganefndarinnar, er snertir sendiherrann í Kaupmannahöfn.

Munu menn kannast við það frá síðasta þingi, að þegar þetta mál var rætt, þá lagðist jeg fastlega á móti því, að þetta embætti væri stofnað. Benti jeg þá á, að ekki gæti komið til mála að hafa sendiherra, sem sæmdi þessari gestrisnu þjóð, ef hann hefði ekki hærri laun en honum voru þá ætluð í fjárlögunum. Og jeg minnist þess, að jeg tók þá svo djúpt í árinni um þetta, að jeg sagði, að hjer væri um bersýnilega blekkingu að ræða af hendi stjórnarinnar, tilraun til að lokka þingið inn á þessa braut, því það var gersamlega ómögulegt að líta svo á, að hæstv. landsstjórn væri svo úti á þekju í þessu máli, að henni væri það ekki nokkurn veginn fullljóst, að sú launaupphæð var hvergi nærri nóg til þess að halda uppi sendiherra, svo að sæmilegt væri sjálfstæðu ríki. Og þetta er líka komið á daginn. Og má nærri segja, að enn sje svo langt gengið, að um blekkingu geti verið að ræða frá stjórnarinnar hálfu, því þó að launin væru nú hækkuð um 5400 kr., þá væri eins ástatt og áður, að það væri heldur hvergi nærri nóg. — Annars væri ekki ófróðlegt að fá betri skýringu á því, í hverju þessar breyttu kringumstæður eru fólgnar, frá því í september síðastliðið sumar. Jeg skil satt að segja ekki í því, að hækkunin sje svo mikil á nauðsynjum, að stjórnin geti fóðrað þessa launahækkunartillögu sína. Það er því eins víst og að 2 og 2 eru 4, að þessar 17,400 kr. ná skamt, en það verða launin að viðbættri uppbót þeirri, er hjer ræðir um, og þyrfti því sjálfsagt að þrefalda þá upphæð að minsta kosti, enda verður það má ske verksvið næsta þings að gera það, ef flanað verður út í það að hleypa sendiherranum af stokkunum.

Að ætla sendiherranum 2000 kr. til húsaleigu er blátt áfram hlægilegt. Það er eins og honum sje ætlað að búa í einhverri kjallara holu eða uppi á hanabjálka í einhverju úthverfisskúmaskoti, ef miðað er við húsaleigu, eins og hún er nú hjer í Reykjavík. Það benti einhver á það á þinginu í fyrra, að kaupa þyrfti handa honum hús eða höll, og leiðir það líka af sjálfu sjer, að slíkt verður að gerast.

Annars er jeg sem fyr algerlega á móti því, að þetta embætti sje stofnað, og vil ekkert fje til þess veita.

Það er alt öðru máli að gegna um þann lið till., sem fer fram á það að senda ræðismann til Miðjarðarhafslandanna.

Jeg er hv. fjárveitinganefnd alveg sammála um það, að það sje í alla staði rjettmætt og nauðsynlegt. Framleiðslan er fjöregg landsins; þess vegna getur það verið að spara eyrinn en fleygja krónunni, að horfa í þann kostnað, sem af því leiðir, að hafa úti menn til að greiða fyrir sölu afurðanna á þeim stöðum, sem mestur markaður er fyrir þær, og kynna sjer það, hver verkunaraðferð fullnægi best kröfum neytendanna á hverjum stað og tíma. Að þessu keppa aðrar þjóðir dyggilega, sjer til ómetanlegra hagsbóta. Eins er okkur nauðsynlegt að vinna kappsamlega að því að kynna vörur okkar á þeim stöðum, sem þær eru ekki kunnar á, og ryðja þeim braut svo sem kostur er. En að því leyti, sem þetta snertir viðskifti okkar við Danmörku, þá höfum við íslenska skrifstofu í Kaupmannahöfn, og getum því snúið okkur til hennar eftir þörfum. (B. J.: Við eigum enga skrifstofu þar). Víst eigum við skrifstofu þar, eða að minsta kosti eru til hennar veittar 12 þús. kr. í síðustu fjárlögum.

Viðvíkjandi hinum liðnum, sem snertir Búnaðarfjelag Íslands, þá er jeg honum fylgjandi og sje ekki ástæðu til að fjölyrða um hann, enda hefir hv. frsm. (M. P.) lýst öllu, sem þar að lýtur, vel og greinilega.

Jeg hefði haft mikla tilhneigingu til að koma með till. viðvíkjandi styrknum til alþýðuskólanna, að hækka hann nokkuð. Þeir skólar njóta sem sje engrar dýrtíðaruppbótar. Það fer því að líkum, að þeir, sem halda uppi skólum þessum, verða allhart úti, því þeir verða að borga kennurum allhátt kaup, að minsta kosti í samsvörun við það, sem kennarar alment fá, en sú hækkun, sem varð á styrknum til alþýðuskólanna á síðasta þingi, var engan veginn í samsvörum við þá hækkun, sem varð á kennaralaunum, að viðbættri dýrtíðaruppbót og öðrum hlunnindum.

Að þessu sinni býst jeg þó ekki við að koma með brtt., en geri ráð fyrir, að þeim verði bætt þetta upp á næsta þingi.