26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) fór hörðum orðum um það, að stjórnin hefði farið með blekkingar í þessu máli, en það er að engu leyti rjett. Jeg veit ekki, í hverju sú blekking ætti að liggja. Vegna verðhækkunar eru launin að vísu nú of lítil, en annars get jeg ekki viðurkent, að ekki megi una við kjörin. Vjer verðum að sníða oss nokkuð stakk eftir vexti. Launin sjálf hygg jeg sæmileg, en það er satt, að húsaleigan er sett of lág, enda hefir hún hækkað allmikið síðan. frv. til fjárlaganna var samið. (P O.: Já, dálítið). Jeg veit ekki, hvað hv. þm. (P. O.) kallar dálítið. Má ske hann kalli það ekki nema dálítið, þótt það væru 50–100%? En húsaleigu hefir verið haldið allmjög niðri í ýmsum löndum með því, að ríkin hafa greitt tillag úr ríkissjóði í þeim tilgangi. Jeg veit, að hv. þm. (P. O.) fer svo hörðum orðum um þetta af því, að hann hefir ekki athugað málavexti sem skyldi. Það geta orðið örðugleikar með húsnæði, og má vel vera, að heppilegt væri að kaupa hús í Kaupmannahöfn fyrir sendiherrann, og þá stjórnarskrifstofur einnig, og helst ætti þar einnig að vera herbergi fyrir ráðherra, er kæmi til Kaupmannahafnar til að bera málin upp fyrir konungi.

Hefði sendiherrann verið kominn til Kaupmannahafnar, þá hefði mátt kalla þetta blekkingu, en þar sem hann er að öllu leyti óráðinn, þá er það ekki blekking frá stjórninni.

Áður en jeg lýk máli mínu vil jeg lítillega minnast á erindrekann í London. Á síðasta þingi var gerð fyrirspurn um það til stjórnarinnar, hvort hann skyldi kallaður heim og hve nær. Þá var búist við því, að hann yrði kallaður heim um áramótin, því þá mundi meiri regla komin á en áður hefði verið. En af því að reynslan varð þvert á móti ætlun manna, þá hefir hann ekki verið kallaður heim enn þá, því að meðan svo stendur, getur það haft þýðingu að hafa sjerstakan erindreka í London. Jeg hefi gert honum aðvart um það, að hann mætti búast við að láta af starfinu bráðlega, eftir að þingið kæmi saman. Annars er það mín skoðun, að ekki þurfi að hafa þar sendiherra mikið lengur, því að þar eru einatt staddir íslenskir kaupmenn, sem sjálfir geta rekið þar erindi sín.