26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Pjetur Ottesen:

Jeg vil byrja með stuttri athugasemd út af því, sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, að stjórnin hefði bygt áætlunina um kostnað sendiherrans í Kaupmannahöfn á því, að verði yrði haldið niðri fyrir dýrtíðarráðstafanir. Nú vil jeg spyrja hæstv. forsætisráðh. (J. M.), hvort það hafi virkilega verið meining stjórnarinnar, að þessar dýrtíðarráðstafanir myndu standa að eilífu. Jeg get nú naumast hugsað mjer það, og sjá því allir, hve hæpin röksemdaleiðsla það hefir verið hjá hæstv. forsætisráðh. (J. M.), er hann ætlaði að miða kostnað við framtíðarstöðu við dýrtíðarráðstafanir í svip. Þetta er engin staðgóð röksemdafærsla, því varla mun hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hafa dottið í hug, að þessar dýrtíðarráðstafanir yrðu látnar gilda fyrir sendiherrann einan, þó aðrir væru sviftir þeim.

Jeg stend því fast við það, sem jeg sagði á síðasta þingi og nú, að launin væru þá og eru enn áætluð alt of lág, og það, sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) er nú að tína til, til að fóðra með hækkunina, er vandræðayfirklór og ekkert annað.

Hv. þm. Dala. (B. J.) telur það höfuðsynd frá sjónarmiði sjálfstæðisins að spyrna á móti sendiherranum. Jeg veit, að þetta er til mín mælt, en jeg tek mjer það ekki nærri; því jeg hefi aldrei verið snortinn af því, að byggja sjálfstæði þjóðarinnar á tildri og fordild, heldur grundvalla það á því raunverulega, þeim hyggindum, sem í hag koma fyrir þjóðina.

Hv. þm. Dala. (B. J.) kvað þetta fje vera nægilegt, sem sendiherranum væri ætlað. Ja, þetta kom nú úr hörðustu átt. En ef við gerum nú ráð fyrir því, sem líklegt er, að svo háttsettur maður, sem sendiherrann er, hefði nú eins og tvær undirtyllur, hvað ætli þá væri nú orðið eftir handa hátigninni sjálfri?

Hv. sami þm. (B. J.) fullyrti, að vandræðunum um söluna á síldinni í sumar hefði verið afstýrt, hefði sendiherrann verið kominn á laggirnar. Þetta er nú auðvitað að eins fullyrðing, sem á sjer engan stað, og get jeg alveg eins fullyrt hið gagnstæða, og stöndum við þá vitanlega jafnt að vígi, nema hvað mín fullyrðing er miklu sennilegri.

Hv. sami þm. (B. J.) mintist einnig á það, að hægt mundi að láta sendiherrann ljetta undir með sjer, ef ekki vinna fyrir sjer, með því að gera öllum að skyldu, sem ferðast vildu til Íslands, að láta hann skrifa upp á vegabrjef sitt, En þá hygg jeg nú, að mönnum tæki fyrir alvöru að torveldast förin heim til Íslands. Ef t. d. Íslendingar í Ameríku, sem hverfa vildu heim aftur, þyrftu að bregða sjer fyrst til Kaupmannahafnar til að láta sendiherrann skrifa upp á vegabrjefið!! Hvað segja menn nú annars um svona viturlegar tillögur? Nei, jeg held, að hv. þm. Dala. (B. J.) verði að bera einhversstaðar annarsstaðar niður, til að afla sendiherranum tekna.