26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Jón Auðunn Jónsson:

Herra forseti! Jeg ætla að fara nokkrum orðum um till. okkar hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), sem er á þgskj.120. Jeg get strikað undir alt, sem hv. meðflm. minn sagði, en vildi bæta nokkru við til nánari skýringar. Jeg skal geta þess, að stjórn útgerðarfjelagsins hefir áætlað kostnað næsta árs, og verður þá halli, sem nemur um 40 þús. kr. Því var skorað á okkur að fá ríkisstyrk, um 30 þús. kr., og átti svo að borga 10 þús. kr. af sýslusjóði, hreppasjóðum og bæjarsjóð Ísafjarðarkaupstaðar. Jeg get ekki dæmt um það, á hve gildum rökum þessi áætlun er bygð, en þó held jeg, að hún muni fara nærri því rjetta. Í haust var gerð áætlun með 20 þús. kr. halla, og var þá ætlað sama fyrirkomulag. En síðan hefir alt hækkað að miklum mun, eins og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir bent á, svo að jeg held, að 40 þús. kr. halli sje nú á rökum bygður.

Hingað til hefir báturinn, sem þessar ferðir hefir farið, verið mjög ófullkominn, og má það kallast mildi, að aldrei hefir hlotist líftjón af, en þó hefir það legið við. Styrkurinn hefir verið svo lítill og ferðirnar borgað sig svo illa, að það hefir ekki verið hægt að fá nægilega góðan bát. Sá, sem notaður hefir verið, er um 12–14 tonn, en það er álit þeirra manna, sem um þetta hafa fjallað, að ekki veiti af 40 tonna báti. Nú er búið að útvega bát með sæmilegri vjel, og er hann um 16 tonn, en margfalt dýrari en sá, sem áður var.

Jeg vona, að jeg þurfi ekki að skýra málið frekar. Jeg vil undirstrika það, að ef styrkurinn verður ekki veittur, þá er engin von til þess, að báturinn geti annast fólksflutninga. Og jeg efast um, að hann geti haldið uppi ferðum. Ef svo fer, á móti von minni, þá er líklegt, að ríkissjóður tapi meiru fyrir aukinn kostnað við póstflutninginn heldur en styrknum nemur.