26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg hefi ekki gert grein fyrir afstöðu nefndarinnar til viðaukatill. á þgskj. 120, af þeirri einföldu ástæðu, að jeg hefi ekki haft tækifæri til að láta álit hennar uppi.

Jeg hefi heyrt, að von mundi á talsvert miklu af svipuðum till., en mjer hefir skilist, að þar væri um að ræða styrkveitingar til nýrra flóabáta, sem ekki eru nú í fjárlögunum. En þessar till. eru ekki sambærilegar við till. þá, sem hjer liggur fyrir. Hjer er um að ræða styrk til báts, sem er í fjárlögunum. En ef fara á að byrja á slíkum málum á þessu þingi eins og breytingum eða bótum á strandferðum, á það eftir að greiða úr talsvert miklum viðfangsefnum. Vildi jeg, að slíkar stórtill. yrðu að minsta kosti ekki lagðar fram, nema þær hefðu umsögn annaðhvort samgöngumálanefndar eða fjárveitinganefndar, og þó helst beggja.