12.02.1920
Neðri deild: 2. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

Rannsókn kjörbréfa

Bjarni Jónsson:

Jeg leyfi mjer, utan dagskrár, að hreyfa máli, sem tekið var til meðferðar á mjög fjölmennum kjósendafundi, sem haldin var hjer í bænum í gærkveldi. Það er þess efnis, að skora á þing og stjórn að láta kosningu hjer í Reykjavík fara fram á sem skemstum fresti, og var þriðudagurinn tiltekinn. Jeg vildi vita, hvort deildinni þætti ekki ráð að sinna þessari áskorun kjósendafundarins. Jeg taldi mjer skylt að hreyfa máli þessu. Hins vegar er tíminn naumur, og af því að jeg heyri sagt, því miður, að auglýst sje, hve nær kosningin skuli fram fara, þá vildi jeg stinga upp á því, að fresturinn verði styttur. Það er litið svo á, að framboðsfresturinn sje óþarflega langur, því að sá verður áreiðanlega ekki kosinn hjer í Reykjavík, sem getur eigi aflað sjer lögmæltrar meðmælendatölu fyrir þriðjudag.