27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Sveinn Björnsson:

Jeg á, ásamt háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), viðaukatill. á þgskj. 133. Jeg skal taka það fram, að vegna þess hraða, sem er á öllum þingstörfum, hefir nefndin bætt við einum lið meðan verið var að prenta till. okkar, og á hún því að verða 6. liður, en ekki 5.

Ástæðan til þess, að jeg er flm. þessarar viðaukatill., er þessi. Jeg var beðinn af manni úr kennarastjettinni að athuga, hvað yrði um tvö atriði, sem kennarar höfðu kvartað yfir við fjárveitinganefnd, til að fá leiðrjetting mála sinna. Jeg spurðist fyrir um þetta hjá nefndinni, og fekk það svar, að hún hefði ekki haft tíma til að athuga þetta svo gaumgæfilega, að hún sæi sjer fært að bera fram till. um það. Till. um heimild til stjórnarinnar til ýmsra fjárbóta er nú á förum úr deildinni og er því ekki seinna vænna að bera fram þessa viðaukatill., svo að hv. deildarmönnum gefist kostur á að taka afstöðu til þessara atriða. 12. gr. laga um skipun barnakennara segir, að launaviðbót þeirra reiknist frá því, er þeir urðu fastir kennarar. En þegar átti að framkvæma þetta, urðu menn ekki á eitt sáttir um það, hvernig skilja ætti orðin „fastir kennarar“. Stjórnarráðið komst að þeirri niðurstöðu, að orðin ættu ekki við aðra en þá sem ráðnir væru kennarar með föstu árskaupi.

Þessi orð. „fastir kennarar“. komu inn í lögin með brtt. frá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv. Hann tók það fram, þegar hann flutti brtt., að hún væri að eins til skýringar, en breytti ekki efni frv. að neinu leyti. Til árjettingar þessu skrifaði hann stjórnarráðinu brjef sem jeg ætla að lesa upp með leyfi hæstv. forseta.

Brjefið er dagsett 27. sept. f. á. og er á þessa leið:

„Að gefnu tilefni skal það tekið fram um breytingu þá á barnakennaralaunafrv., sem gerð var í Nd. Alþingis og jeg var nokkuð við riðinn, sem sje að stöðualdur kennara til hækkunar launum þeirra skyldi teljast, ekki frá því lögin koma til framkvæmda, heldur frá því er þeir byrjuðu að starfa við skólann, — þá var það ákvæði meint þannig, þótt þar standi „fastir kennarar“ (12. gr.), að árin teldust frá þeim tíma, er þeir voru ráðnir kennarar við skólann, hvort sem þeir hafa starfað sem svokallaðir „fastir“ eða að eins sem tímakennarar. Með föstum kennurum í þessu sambandi var þannig átt við alla ráðna kennara við viðkomandi skóla (aðra en þá, sem um stundarsakir hafa kent, en síðar horfið frá).“

Þegar stjórnin úrskurðaði, að uppbótin skyldi að eins ná til kennara með föstu árskaupi, hefir hún ekki haft þetta brjef fyrir sjer. En afleiðingin af því, að úrskurður stjórnarinnar yrði lagður til grundvallar, yrði sú, að þá mundi nálega enginn kennari fá uppbót. Það hefir varla átt sjer stað, að kennarar hafi verið ráðnir með föstu árskaupi, þó að kensla hafi verið aðalatvinnugrein þeirra. Það liggur því í augum uppi, að kennarar verða hjer fyrir ranglæti, sem löggjafarvaldið hefir ekki ætlast til.

Nú kann það að orka tvímælis, hvort rjett sje, að Alþingi samþykki þetta í þingsályktunarformi. En þó hygg jeg, að ekkert geti verið því til fyrirstöðu, úr því að svo stendur á, að ekki hafa verið lögð fyrir stjórnina þau gögn, sem hlutu að skýra málið. Jeg vænti því. að deildin geti að minsta kosti samþykt a-liðinn. Um b-liðinn er mjer ekki eins kunnugt. Hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) gefur skýringu á honum. Hygg jeg því rjett að bera liðina upp í tvennu lagi.