27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg hefi ekki komist enn að til þess að halda framsöguræðu í þessu máli, enda er ekki margt um það að segja fyrir nefndarinnar hönd.

Nefndin á hjer viðaukatill. á þgskj. 152. Það hefir verið svo undanfarið að læknaefni, sem hafa útskrifast hjer, hafa orðið að fara til Kaupmannahafnar til þess að fullkomna sig á fæðingarstofnun og hefir það verið skilyrði fyrir embættisveitingu. Til þessa fullnaðarnáms hafa þeir fengið ferðastyrk frá Íslandi, en Danir hafa greitt þeim mánaðarlegan styrk meðan þeir voru við námið, venjulega 6–9 mánuði. En við nýja ríkjasambandið hefir styrkurinn frá Dönum að sjálfsögðu fallið niður. Nú býst jeg við, að stjórnin eða þingið hafi gert ráð fyrir, að sáttmálasjóðurinn yrði hjer til hjálpar. En raunin hefir orðið önnur. Að vísu er ætlaður styrkur til kandídata. En það eru að eins 4 kandídatar á ári, sem geta orðið styrksins aðnjótandi, og þar af í mesta lagi 2 læknakandídatar, sem gætu komið til mála. Og mun þó fremur gert ráð fyrir, að styrkurinn notist til þess að framast yfirleitt í læknislistinni, en ekki til þess að ljúka fullnaðarnámi. En þar sem það er skilyrði embættisveitingar, að læknaefnin gangi á fæðingastofnun, vona jeg, að deildin sjái sjer skylt að veita þennan styrk. Hjer eru læknaefni, sem enn hafa ekki farið til útlanda, og má vænta, að töluvert bætist við þann hóp á þessu ári. Þess vegna getur styrkveitingin ekki beðið til næsta þings. Hjer eru 1000 kr. ætlaðar hverjum nemanda, og er það síst of mikið, því að fyrir 10 árum voru veittar 50 kr. á mánuði um 6 til 9 mánaða tíma. Ef þessi till. verður feld. geta læknaefnin ekki farið utan fyr en eftir næsta þing, og geta allir skilið, hversu bagalegt það getur orðið landinu í þeirri læknafæð, sem nú er.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að því, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði. Jeg er ekki sammála því, sem hann skaut til stjórnarinnar, að þessi styrkur til Ísafjarðarbátsins eigi að skoðast veittur fyrir bæði árin. Hann á eiginlega að miðast einungis við yfirstandandi ár, en næsta þing á að ákveða hann fyrir 1921.

Það var alveg sama athugasemdin, sem jeg hafði að gera við ræðu hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), ef hann vill hlýða á mál mitt, að jeg álít að þessi till. um fjárveitinguna til flóabáts geti að eins átt við þetta ár, því jeg vænti fastlega, að næsta þing geri einhverja bragarbót á strandferðamálinu í heild sinni, en kasti ekki svona út styrkveitingum, án nokkrar íhugunar eða rannsóknar á þörfunum víðs vegar um landið.

Út af þessari styrkveitingu skal jeg lýsa yfir því fyrir hönd nefndarinnar, að henni þykir nú betur ráðið en út leit fyrir í gær, en út af því, sem hv. frsm. (Sv. Ó.) sagði, að fjárveitinganefnd samþykti þessar 60 þúsund krónur, þá er það ekki alveg rjett. Hún bindur samþykki sitt með fjárveitingu slíkri því skilyrði. að upphæðin verði 80 þús. kr., en ekki 60 þús. kr. Hún álítur ekki nægilegt að líta einungis á þær kröfur, sem nú eru komnar fram, vegna þess, að sumir landshlutar vita enn ekkert um þær breytingar á samgöngunum, sem nú eru orðnar frá því, sem gert var ráð fyrir á síðasta þingi, og þar sem samgöngumálanefndin hefir ætlast til, að þetta væri hámark, sem stjórnin mætti ekki fara fram úr, þá vildi fjárveitinganefnd hækka hámarkið dálítið, svo að stjórnin gæti litið til víðar. Jeg þykist vita, að samgöngumálanefndin geti ekki haft neitt við þetta að athuga, því að hún hefir gefið stjórninni svo óbundnar hendur hvort sem er í þessu máli, að hún mun eins trúa henni, þótt bætt sje við 20 þús. krónum, og jeg hefði heldur ekkert sjeð á móti því. þó að varið væri til þessa þeim 100 þús. krónum, sem gert var ráð fyrir á síðasta þingi að verja til að bæta strandferðir.

Jeg tók ekki eftir því hjá hv. frsm. (Sv. Ó.). hvort meiningin væri að taka aftur þessar till. um einstaka flóabátastyrki. (Sv. Ó.: Jú, það var það). Nú, þar verða þá allar teknar aftur. Um viðaukatill. á þgskj. 133 hefi jeg ekki annað að segja en að nefndin er henni meðmælt, þótt hún verði að játa, að slíkt sje ekki vel formlegt, en jeg sje heldur ekki annað en að öll aðferðin á þessu þingi og alt, sem það snertir, hafi verið svo óformlegt, að ekki sje hægt að hengja hatt sinn á þetta einstaka atriði.

Jeg vænti nú, að hv. deild sýni þessum till. fjárveitinganefndar alla sanngirni, og skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni.