27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Þórarinn Jónsson:

Það er aðallega vegna brtt. á þgskj. 153, við viðaukatill. á þgskj. 150, frá samgöngumálanefnd. Þessi brtt. frá fjárveitinganefnd fer fram á að hækka styrkinn úr 60,000 kr. upp í 80,000.

Jeg vil eindregið mæla með þessari till., og er það af því, að jeg sje það í hendi mjer, að styrkurinn er of lítill, ef taka ætti tillit til annara staða en þeirra, sem fjárbeiðnir eru komnar frá. Jeg gekk þó inn á þennan styrk í nefndinni — 60,000 kr., — með því að jeg sá, að stjórnin hafði dálítið fje aukreitis til að hjálpa með annarsstaðar. en jeg sje það strax, að þarna er svo lítið fram yfir, að stjórnin mundi ekki til nokkurra muna geta bjargað með því, og jeg sje það líka, að þótt þessi till. kæmist í gegn, þá mun hún ekki geta breytt ferðaáætlun Sterlings, og því mörg hjeruð þurfandi fyrir styrk.

Það mundi þurfa marga báta til þess að flytja vörur til ýmsra hafna, og þyrftu þá mörg hjeruð að fá styrk; t. d. veit jeg, að í mínu kjördæmi þarf að fá bát til flóaferða, og þess vegna var það, að jeg samþykti þessa viðbót, til þess að unt væri að hjálpa á stöku stað, þar sem þörfin væri brýnust.

Þá finst mjer rjett að geta þess, í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Árn. (E. E.), að mjer barst brjef frá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), þar sem hann minnist á ferðir „Suðurlands“ til Stokkseyrar og Eyrarbakka. Kveðst hann hafa átt tal við forstjóra fjelagsins um þetta, og er svo að orði kveðið í brjefinu:

Þá vil jeg láta ykkur vita, út af Suðurlandsferðunum, að framkvæmdarstjóri s. s. „Suðurlands“, Sveinn M. Sveinsson, hefir tjáð mjer, að þeir ætluðu sjer að láta prenta neðanmáls á áætlun sína, að skipið færi í sumar til Eyrarbakka og Stokkseyrar sex sinnum eða svo, ef nægur flutningur byðist (og fleiri nálæga staði), eftir sex aðalferðir, þar sem því væri ætlaður ríflegur tími til slíkra skottuferða á milli, og þetta aukalega og í viðbót við föstu ferðirnar. Hann gat þess, að allar verslanirnar á Stokkseyri og Eyrarbakka, „Ingólfur“, „Hekla“ og Andrjes Jónsson, væru nú sem áður hluthafar fjelagsins“ o. s. frv.

Jeg er ekki að taka þetta fram til þess að draga neitt úr, að styrkur verði veittur til þessara bátaferða, en það eru allar líkur til þess, að þetta fjelag, sem heldur úti Suðurlandi, muni rækja þessar hafnir eftir því, sem hægt er, og eftir því, hvað þörfin er brýn, en á hinn bóginn eru svo mikil vandkvæði á, að bátur, sem færi þangað, geti nokkuð athafnað sig á þeim slóðum, þegar eitthvað er að sjó og veðri.