27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Sveinn Björnsson:

Það eru nokkur orð út af viðaukatill. á þgskj. 133, sjerstaklega út af ummælum hæstv. fjármálaráðh. (M. G.). Jeg skal strax taka það fram, að þegar jeg tók að mjer að koma fram með þessa till., var jeg ekki vel kunnugur málinu. En eftir því, sem jeg hefi getað kynt mjer málið, breytir ræða hæstv. fjármálaráðh. (M. G.) og skýringar hans ekki þeirri skoðun, sem jeg hygg rjetta vera í þessu efni. Jeg þykist sannfærður um, að stjórnarráðið mundi ekki hafa úrskurðað málið svo, sem það gerði, ef fyrir því hefðu legið skýringar þær, sem síðar komu fram.

Jeg játa, að það á ekki við að breyta lögum með þingsál.till. En hjer er ekki um neitt slíkt að ræða, enda enginn tími til að breyta nú lögunum, þótt rjett væri, að það yrði gleggra. Það, sem hjer er um að ræða, er það, að með samþykt í þingsál.formi sje stjórninni gefið tilefni til að breyta úrskurði, sem feldur var eftir röngum forsendum.

Nú er það upplýst af hæstv. fjármálaráðh. (M. G.), að það var rjett, að ekki lá fyrir, er stjórnarráðið úrskurðaði atriðið, brjef frá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), sem jeg mintist á áðan, þar sem hann gaf skýringu í málinu. Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) sagði, að skoðun einhvers þm. gæti ekki breytt rjettum skilningi á lögunum. Þótt svo sje ekki, verð jeg að halda því fram, að ef vafi er um skilning á lögum, þá getur bæði umboðsvald og dómsvald leitað sjer upplýsinga um hið rjetta í undirbúningi málsins hjá löggjafarvaldinu, en þar sem þetta er hið eina, sem fyrir liggur til skýringar brtt. þeirri um þetta efni, sem samþykt var hjer í deildinni á síðasta þingi, og þau fáu orð, sem um hana fjellu áður en hún var samþykt, þá finst mjer ekki til of mikils mælst, að stjórnin taki tillit til upplýsinga hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), er úrskurða á um vafaatriði þetta.

Þess vegna finst mjer, að vel megi samþykkja tillöguna, án þess að leggja þann skilning í, að það hafi verið ætlun deildarinnar að breyta lögum með þingsál.till. Og jeg er ekki sannfærður af ræðu hæstv. fjármálaráðh. (M. G.), að ekki sje ástæða til þess að taka þetta til nýrrar yfirvegunar og ekki ástæða fyrir deildina að biðja stjórnina að taka það til yfirvegunar.

Hvað snertir ræðu háttv. frsm. fjárveitinganefndar (M. P.), þá er gott að heyra, að nefndin hefir athugað málið og að hún ljær því meðmæli sín, og styður það enn betur mál mitt.

Annars hefi jeg lítið að athuga við önnur atriði málsins. Skal að eins geta þess, að jeg er ekki alveg á sama máli og háttv. meðflm. minn (Þorst. J.), að það sje rjett, að aldursbótin sje bundin við þennan tíma, að hún sje bundin við 30 stunda kenslu.

9. gr. nefnir 30 stundir í sambandi við árslaun. 12. gr., um aldursbæturnar, er sjálfstæð og vísar ekki til 9. greinar. Finst mjer því ekki nauðsynlegt að leggja þennan skilning í hana. Finst það frekar ósanngjarnt.