27.02.1920
Neðri deild: 16. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg hafði hugsað mjer að tala nokkur orð viðvíkjandi tillögunni um styrk til vöruflutningabáta. En þar er margt búið að taka fram, sem jeg hefði viljað segja, og hefi jeg þar litlu við að bæta. Samt skal jeg geta þess, að jeg lít dálítið öðruvísi á, hvað Eyrarbakka og Stokkseyri snertir, heldur en gert hefir verið, enda geta menn varla gert sjer grein fyrir, hvernig þar hagar til, sem þar eru ekki kunnugir.

Jeg get vel lýst Eyrarbakka, bæði hvað snertir tálmanir þær, sem þar eru fyrir hendi, og svo á hinn bóginn, hvað verslun og vöruþörf er þar mikil.

Hvað hið síðara snertir, þá mun háttv. deild það kunnugt, að þangað sækja fjölmennar bygðir verslun sína, auk kauptúnanna sjálfra, og er því ljóst, að hjer er um mikla vöruþörf að ræða. Enn fremur er hjer um fiskiver að ræða, sem mikið er að sótt.

Þetta hefir að vísu verið viðurkent með því að styrkja Suðurland og ákveða, að það fari þangað austur 6 ferðir á sumri. En þetta álít jeg ekki nóg; álít, að það komi ekki að fullum notum, og kemur þar að tálmununum, sem jeg mintist áðan á.

Þó að skip komi þangað fermt vörum, þá getur oft staðið svo á, að ómögulegt sje að ná einum einasta hlut úr skipinu. Veldur því brimið, sem ekki að eins getur orðið afarmikið, heldur getur einnig skollið snögglega á.

Þó að skip fari hjeðan í blíðviðri, getur þó svo farið, að leiðin inn sundin verði ófær þegar austur kemur og ekki hægt að ná í neinar vörur. Fer þá svo, að menn fá að eins að sjá eða vita af vörunum, en sjálfar koma þær kann ske ekki fyr en næsta ár, eða þá jafnvel aldrei.

Háttv. deild getur víst varla skilið þessa erfiðleika. Jeg get sagt sem dæmi, að einu sinni þegar jeg var unglingur, kom skip frá Reykjavík með vörur, sem áttu að fara til vegagerðarmanna í Flóanum. Við fórum út í skipið og fengum lag til þess að komast þangað. En þegar til lands skyldi halda, var sundið lokað. Lauk því svo, að 3 menn mistu lífið, en sumir, sem af komust, voru lasburða lengi á eftir. Þess vegna má sjá, að ekki er mikið að byggja á strandferðabáta með reglubundnum ferðaáætlunum, því þeir mega ekki bíða eftir, að lags verði leitað að komast út í þá, heldur verða að halda áfram sinni ferð.

Þetta vona jeg að háttv. deild taki til athugunar; vona, að aldrei verði veittur neinn styrkur til reglubundinna ferða þangað, því það er nærri sama sem að kasta peningum í sjóinn.

Hitt væri öðru máli að gegna, að fá þann styrk til bátaferða, sem yrðu að ljúka sjer þar af, og veita þá styrk fyrir hverja ferð í senn. Væri þá heppilegast að taka 3–5 báta í einu, og „grípa þá gæsina á meðan hún gefst“, nota tækifærið þegar vegurinn er fær og ferðin getur komið að notum.

Á þennan hátt væri þessum peningum ekki varið til ónýtis, því vitanlega þurfum við oft á ferðum að halda.

Jeg tek til dæmis núna. Það er harðindatíð. Vjer þurfum vörur til þess að bjarga skepnunum, vjer þurfum salt til þess að verka fiskinn o. s. frv. Og þá gætu líka 5 bátar komið að góðum notum.

Jeg vona, að stjórnin taki þetta til athugunar, og endurtek svo að lokum það, sem jeg sagði áðan, að styrkur til reglubundinna ferða er þýðingarlítill, heldur er sá einn að gagni, sem getur stutt að því, að ferðin komi að fullum notum.