28.02.1920
Efri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal ekki fara út í mörg atriði, með því að tíminn er knappur.

Jeg skal að eins minnast lítils háttar á 1. lið till, launabót til sendiherrans. Jeg fyrir mitt leyti legg ekki áherslu á það, hvort viðbótin verður samþykt eða ekki. Ef hún verður ekki samþykt, þykist jeg mega ráða það, að hv. deild sje ekki kappsmál að senda sendiherrann þegar í stað. Hins vegar hefir stjórnin skýlausa heimild til þess að senda hann hve nær sem henni þykir henta. Annars tel jeg þessa viðbót alt of litla. Annars mun jeg athuga kostnaðarhliðina við sending sendiherra rækilega þegar jeg væntanlega fer til Kaupmannahafnar næst, enda má vera, að málið alt þurfi betri undirbúning. Jeg hefi lagt áherslu á það við skrifstofustjóra stjórnarráðsins í Kaupmannahöfn, að losa herbergi þau, sem skrifstofan hefir þar nú ókeypis í húsum dönsku stjórnarráðanna, en það hefir ekki tekist enn. Það kom til tals í fyrra að kaupa hús handa væntanlegum sendiherra og fyrir skrifstofur, en það var svo dýrt, að ekki þótti tiltækilegt. Það er annars ekki líklegt, að sendiherrann þurfi mjög dýra íbúð, og gæti jafnvel komið til mála, að íbúð hans væri utan við bæinn.

Jeg skal að eins láta þess getið, að jeg tel varhugavert að samþykkja 7. liðinn, um launabót barnakennara. Ef vel væri, þyrfti að athuga lögin um laun barnakennara.