28.02.1920
Efri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg stend aðallega upp út af 7. lið till. Það er mín skoðun, að endurskoða þurfi lögin um laun barnakennara í heild sinni. Það sýnist því svo, sem till. sje óheppileg. Það sýnist koma í bág við anda laganna, að uppbótin komi þeim til góða, sem að eins einhverja stund hafa haft kenslu á hendi. Það er svo oft, að kennarar byrja með 5, 6 eða 7 stunda kenslu á viku og hækka svo eftir því, sem þeir reynast. En ef þessi till. nær fram að ganga, á að miða uppbótina við það, hve nær þeir fyrst urðu stundakennarar. Nú gildir það, að 30 stundir á viku er sett sem lágmark fyrir því, að kennarar komist undir ákvæði kennaralaganna, og standi kenslan 6 mánuði á ári.

b-liður till. fer beint í bága við anda laganna. Þar er gert ráð fyrir mismunandi hækkunarreglum um kaup kennara. Jeg sje ekki, hvernig það fær staðist að reikna eftir þjónustualdri, hvernig sem kennari hefir verið fluttur til; látum vera flutning frá farskóla til kaupstaðarskóla, en flutningur frá kaupstaðarskóla til farskóla gati naumast átt sjer stað, nema kennari sá, er í hlut á, hafi reynst illa.

Það gleður mig að heyra, að hv. 2 þm. S.-M. (S. H. K.) telur stjórnina hafa skýrt lögin rjett, enda er jeg í engum vafa um það. En jeg verð að herma það eftir viðtali við flutningsmann till. í Nd., að hann gerði ekki ráð fyrir þjónustualdursuppbót á þessu ári, og er það harðara en stjórnin hafði ráð fyrir gert. Lágmarkslaun barnakennara eru nú á 5. þús. kr. fyrir 7 mánaða kenslu, og er þetta ekki svo lítið, saman borið við laun annara starfsmanna, en sumir kennarar komast hærra, á 6. og 7. þús. kr.

Loks er þetta form mjög óviðkunnanlegt, að ætla sjer að breyta lögum með þingsályktun, enda er það ekki hægt, eins og tekið hefir verið fram. Það er að sjálfsögðu undir stjórninni komið, hvort hún notar sjer slíka heimild, en líklega mundi hún telja sjer skylt að gera það, í því trausti, að á næsta þingi kæmi fram lagabreyting í sömu átt.

Jeg skal að eins geta þess um 1. lið till., að jeg er samþykkur honum. Mjer hefir jafnan þótt nauðsynlegt að hafa þennan sendiherra, því að jeg sje ekki, hvernig hægt er að fela Dönum umboð vort gagnvart sjálfum sjer, þótt við getum falið þeim að koma fram fyrir vora hönd gagnvart öðrum þjóðum.