28.02.1920
Efri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg var í minni hluta í samgöngumálanefnd. Þar voru allir á því að auka sem minst útgjöldin. Tel jeg það rjett vera og held mjer fast við það nú. Jeg held því fram, að 6. liður till. sje mjög þarfur og praktiskur, eins og nú er ástatt. Kolavandræðin sverfa að, og útlit er fyrir, að þau fari fremur vaxandi. Aftur fæst nóg steinolía. Má því ætla, að mótorbátaferðir aukist að mun, eftir því sem gufuskipaferðir verða strjálli. Jeg held því ekki, að menn geti kipt að sjer hendinni um þennan lið. Samgöngumálanefnd hafði einnig allan vilja á að spara þennan styrk sem mest, og því var það, að jeg kom ekki fram með beiðni um hækkun á styrk, sem ætlaður er báti, er gengur fyrir Rangársandi. Bátur þessi á að ganga eftir vissum áætlunum, en verður oft teptur sökum brims, og gengur því fremur óreglulega; hefir það aukinn kostnað í för með sjer. Menn hafa talað um að bæta úr samgönguleysinu á landi með því að veita fje til bátaferða. Jeg vildi þó ekki koma fram með beiðni þessa í samgöngumálanefnd, þar sem liðurinn hækkaði talsvert við það. En nú fer jeg þess á leit við deildina, að 1000 kr. sjeu veittar til einstakra ferða báts þess, sem gengur fyrir Rangársandi. Vil jeg sjerstaklega leggja áherslu á, að það eru einstakar ferðir, en ekki áætlaðar, er þessi styrkur á að ganga til.