28.02.1920
Efri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Einar Árnason:

Mig langar til að segja örfá orð út af 3. lið þingsál.till., því þar sem talað er um starfsmenn Búnaðarfjelags og búnaðarsambanda sýnist mjer einum manni hafa verið gleymt, sem sje garðyrkjustjóra landsins. En sá maður, sem því starfi gegnir, hefir áður starfað lengi í þjónustu Búnaðarfjelagsins, og virðist því óviðkunnanlegt, að hann fengi ekki dýrtíðaruppbót á sama grundvelli og núverandi starfsmenn þess.

Jeg vildi því mega leyfa mjer að bera nú fram skriflega brtt. um þetta, þar sem tími hefir ekki unnist til að láta prenta hana. Með henni er upphæðin jafnframt hækkuð um 2 þús. kr., með tilliti til uppbótar garðyrkjustjórans. Afhendi jeg nú forseta till. þess og vænti þess, að deildin leyfi henni fyrst að koma til atkvæða og samþykki hana síðan.