26.02.1920
Neðri deild: 15. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

51. mál, brúarstæði á Héraðsvatnaósi vestari

Flm. (Jón Sigurðsson):

Eins og kunnugt er, hagar svo til, að Hjeraðsvötnin skiftast neðarlega í hjeraðinu í 2 stórar kvíslar og skifta þannig útparti hjeraðsins í 3 hluta. Þau hafa frá ómunatíð verið hinn versti farartálmi, því um vöð á Hjeraðsvötnum er tæplega að ræða fyrir utan Flugumýri, sökum sandkviku og stöðugra breytinga. Þetta hefir verið því bagalegra, sem aðalverslunarstaðurinn, Sauðárkrókur, er vestan megin fjarðarins og því vestan við báðar Hjeraðsvatnakvíslarnar. Nokkuð bætti það úr samgönguvandræðunum, þegar brúin á Hjeraðsvötnum austari var bygð, skömmu fyrir aldamót, en sú brú var endurbygð 1918.

Á Hjeraðsvatnaós vestari hefir aftur á móti verið dragferja um langt skeið, þótt staðhættir hafi verið þess valdandi, að hún hafi oftlega ekki orðið notuð, er hennar var mest þörf. Vil jeg skýra þetta nokkru nánar. Vestan við ósinn liggur mjór tangi milli sjávar og Hjeraðsvatna, sem knýr þau til að falla til sjávar í tiltölulega mjóum farvegi, hinum svo nefnda Vesturós. Við þennan tanga verður ferjan að lenda. Er það gott að sumarlagi, en í norðanátt að haustinu gengur brimið alveg yfir tangann. Getur þá hver og einn getið sjer til, hvernig sje að ferja. Þegar þannig fellur, er það oftlega fullkomin lífshætta. Við þetta eiga allir þeir að búa, sem búsettir eru í útparti hjeraðsins austanverðum og sækja verslun til Sauðárkróks.

Haustið 1918 voru stöðug norðanillveður, svo óferjandi var yfir ósinn svo klukkutímum og jafnvel dögum skifti. Ættu allir að geta sjeð, hversu mikið fjártjón og óþægindi það muni hafa í för með sjer að liggja þannig teptur dögum saman með fjölda fjár og klyfjahesta. Það er því ekki undarlegt, þótt almennur áhugi sje vaknaður fyrir að fá bót ráðna á þessum samgönguvandræðum, enda fjársöfnun þegar hafin í því skyni. Verkfræðingarnir hafa verið beðnir að rannsaka brúarstæðið, en enn þá eru það að eins ófullnægjandi botnrannsóknir, eftir því sem vegamálastjóri hefir tjáð mjer. Það er almenn ósk hjeraðsbúa, að þessum rannsóknum verði lokið sem fyrst, því þá fyrst, eins og hv. deildarmenn geta sjeð, er hægt að undirbúa þetta mál sæmilega af hálfu hjeraðsbúa, með fjársöfnun o. fl.