27.02.1920
Neðri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

60. mál, vöruvöndun

Magnús Kristjánsson:

Sje það dæmi rjett, sem hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) tilfærði, þá er þess að gæta, að ýmsir stunda síldveiðar hjer við land, sem löggjafinn nær ekki til, og gæti þessi síld hafa verið veidd á þann hátt. Enn hefir ekki þótt gerlegt að lögbjóða, að öll síld, sem hjer er veidd af útlendingum utan landhelgi, skyldi metin í landi, þótt skipin kæmu má ske einu sinni í höfn yfir veiðitímann.

Ákvæðið í síldarmatslögunum um það, að ekki bæri skylda til að meta síldina upp aftur fyr en eftir 3 vikur, var sett fyrir orð útgerðarmanna og tilmæli síldarmatsmanna. Að vísu mun þeim ekki hafa öllum komið saman um þetta atriði, en samt var farið eftir till. þess mannsins, sem sjerþekkingu hafði og sjerstaklega hafði kynt sjer málið.

Hið eina, sem komið gæti til mála að breyta síldarmatslögunum, væri það, að banna útflutning á síldinni fyr en hún hefði legið hjer 3 vikur og verið metin upp aftur. En það er mjög varasamt að setja slíkt ákvæði. Stundum getur verið gott að flytja síldina út strax eftir fyrstu söltun; er markaðurinn þá má ske bestur. En útflutningurinn á þeirri síld hefir í sjálfu sjer engin áhrif til hins verra á vöruverðið, því oftast mun síldin endurmetin þar, og annað hitt, að áður en hún er flutt út er hún auðkend sem ómetin vara, og ætti því ekki að geta haft spillandi áhrif á markaðinn.

Að vísu verður því ekki mótmælt, að besta tryggingin fyrir því að að eins yrði flutt út góð og gjaldgeng vara, væri sú, að banna útflutning fyr en eftir 3 vikur og endurmeta alla síld. En hjer er sem sagt um stórt vandamál að ræða, því þetta gæti leitt til þess, að seljendur mistu af besta markaðinum. En það er ekki rjett af hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) að kenna breytingunum, sem gerðar voru á síldarmatslögunum á þinginu í fyrra, um, því á þessi nýju lög hefir lítið reynt enn sem komið er.

Um þetta mætti margt fleira segja, en jeg vil ekki vera að tefja umr. Það eina, sem ástæða væri fyrir stjórnina til að athuga, er hvort heppilegt mundi vera að setja reglur um eftirlit með tunnugerð. Sú atvinnugrein er að vísu lítið stunduð hjer í landi enn þá, en getur má ske haft þýðingu í framtíðinni.