27.02.1920
Neðri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

60. mál, vöruvöndun

Flm. (Bjarni Jónsson):

Fyrir mjer ráða menn því algerlega, hvort þeim er sama, hvort nokkuð er litið eftir vöruvöndun eða ekki, en mjer er ekki sama, og jeg býst við, að hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.) telji ekki á sig að líta eftir þessu engan veginn þýðingarlausa atriði, sem háttv. þm. Ak. (M. K.) virtist þó ætla að það væri.

Það er engan veginn einskis vert fyrir íslenska framleiðslu, að stjórnin sjái um, að slíkar umbúðir megi ekki hafa um varninginn, er skemmi hann og spilli erlenda markaðinum.

Í sjálfu sjer finst mjer það ekki koma málinu við, hvort tunnurnar eru margar eða fáar, sem smíðaðar eru hjer á landi. Það er vel þess vert að stuðla að því, að tunnugerð verði innlend, og það því meiri ástæða, sem minna er smíðað enn þá af þeim í landinu. Það er atvinnuveginum sjálfum til hags, ef settar eru reglur um vöndun, en stórtjón, er vart verður metið, er að því, ef t. d. kjöt er saltað í lýsistunnur og síld í óhreinar tunnur. Sje það rjett með farið, að þetta hafi verið gert, sje jeg ekki annað en fylsta ástæða sje til að samþykkja áskorun á stjórnina um að hefjast handa í máli, sem í sjálfu sjer er skylda hennar að rannsaka af sjálfsdáðum.

Það er heldur ekkert smámál í eðli sínu, sem hjer er um að ræða. Það er ekkert smámál, hvort vara landsmanna er í háu eða lágu verði.