10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

Rannsókn kjörbréfa

Bjarni Jónsson:

Jeg get eigi látið hjá líða að hreyfa mótmælum gegn tillögu hv. frsm. 1. kjörbrjefadeildar (E. E.), því aldrei hefir einfaldari kæra komið, nje þá heldur minni ástæða til þess að fresta úrskurði. Ber þar og eigi síst til, að meginglöpin eru fyrir klaufaskap kjörstjórnar, en sá, er kjósa á, á þar á enga sök. Má þar þess einnig geta í því sambandi, að kjörskráin var afhent mjög illa útbúin, eftir því sem yfirdómslögmaður A. Tulinius hefir sagt mjer. Var hún á sundurlausum blöðum, er fest voru niður með látúnsspennum, svo að eigi sást í kjölinn, þó að vel væri að gætt, nema rífa þau upp.

Enn fremur má það smán heita, að eigi sje hægt að skera úr, án þess að á fresti þurfi að halda, því öllum er vitanlegt um þá ágalla, er hjer er um að ræða, og svo í annan stað afleiðingin sú, að láta Reykjavík verða þingmannslausa. Því verði kosningin gerð ógild, þarf að kjósa á ný. Og því lengur sem á úrskurðinum stendur, því lengur verður og þingmannssæti Reykvíkinga óskipað, enda má eigi annað sjá en að til þess sje leikurinn gerður, því eigi fæ jeg skilið, hvers vegna menn annars vilja láta fresta úrskurðinum.