17.02.1920
Efri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

24. mál, varnir gegn spönsku innflúensusýkinni

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get ekki sagt, hvernig pestin hefir borist til Vestmannaeyja, en enginn vafi mun leika á því, að hún er þangað komin. Er talið líklegt, að hún hafi borist með þýskum botnvörpungi. Einnig höfðu Vestmannaeyingar haft einhver mök við enskan botnvörpung, sem þangað kom með sjúka menn og fekk meðul úr landi, en sagt er, að enginn hafi farið úr bátnum, er meðulin flutti úr landi, út í skipið, nje neinn úr skipinu í bátinn.

Þar sem veikin er komin til Eyjanna, hafa allar samgöngur verið bannaðar við suðurströndina, og Vestmannaeyjar skulu að öðru leyti skoðaðar útlönd meðan sýkin er þar og hættan stendur yfir.

Nokkur hætta er á, að veikin sje komin hingað. Menn þeir, sem hingað hafa komið og farið frá Eyjunum síðan veikinnar varð vart, hafa verið settir í sóttkví. Í dag hefir verið farið um bæinn og þau hús rannsökuð sem Vestmannaeyingar þessir hafa dvalið í. Hafa tveir menn fundist með hita í einu þessara húsa. Á þessu augnabliki sitja tvær sóttvarnarnefndir á rökstólum og ræða hvað gera skuli.

Allar samkomur hafa verið bannaðar í bráð. Jeg vonast fastlega til, að sýkin sje ekki komin hingað, en allur er varinn góður. Það, sem örðugast er við að eiga, ef til kastanna kæmi, er læknafæðin. Það hefir reynst fullerfitt að fá lækna í hin lögskipuðu hjeruð, hvað þá fleiri. Menn vita, hvernig gengið hefir að fá lækna fyrir þá hjeraðslækna, er sitja á þingi. Þetta er sá brestur, er ómögulegt er við að gera sem stendur.

Jeg held eigi, að brýna þurfi stjórnina eða aðra. Allir hafa fullan vilja á að gera alt sem hægt er til varna. Eins og hv. flm. (G. Sv.) sagði, þá er hættan mikil á þessum stað — í Vestmannaeyjum. Það gæti verið álitamál, hvort 7 dagar sjeu nægilegir eða ekki. Flestir halda, að þeir sjeu ekki einungis nægilegir, heldur fram yfir það. Sóttvarnarnefnd símaði til skrifstofu stjórnarráðsins í Kaupmannahöfn, er beðin var um að bera sig saman við Guðmund Thoroddsen, lækni í Kaupmannahöfn, og spurðist fyrir um það. Svar hans var, ef jeg man rjett: 1–2 meðgöngudagar og sóttkvíunartími nægur 3 dagar. Eins og hv. flm. (G. Sv.) tók fram, voru sóttvarnir fyrirskipaðar 5 daga, en seinna fanst stjórninni rjettara að lengja tímann í 7 daga, eftir tillögum læknadeildar háskólans, til frekari varúðar. Sumir telja reyndar, — þar á meðal landlæknir — að sóttkvíunartíminn megi ekki styttri vera en 10–14 dagar.

Það er svo sem sjálfsagt, að ekki má spara fje til skynsamlegra varna. En spurningin er þá, hvort kostnaður allur skuli greiddur úr landssjóði. Mætti athuga það atriði í nefnd.