17.02.1920
Efri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

24. mál, varnir gegn spönsku innflúensusýkinni

Magnús Kristjánsson:

Jeg vil að eins gera örfáar athugasemdir við þau ummæli hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að nauðsynlegt muni að hefta ferð Lagarfoss að miklu leyti eða öllu. Þetta er eflaust í góðu skyni gert. En jeg vil þó benda á það, að af slíkum töfum á ferð skipsins getur engu síður stafað hætta en af hinu. Vöruskortur er tilfinnanlegur norðanlands, og tíðarfarið ískyggilegt, svo að fyrir gæti það komið, að leiðin norður lokaðist; væri þá illa farið, ef skipinu hefði verið bönnuð ferðin meðan fært var. Því sjálfsagt má afgreiða skipið með þeirri varúð, að ekki stafi hætta af, allra helst þar sem engar sönnur eru færðar á, að nokkur hætta geti stafað af skipinu.

Benda mætti einnig á þá leið, að láta skipið sleppa Ísafirði og halda beint norður fyrir land. Þá yrði tíminn styttri, sem skipið tefðist vegna sóttkvíunar, ef svo illa færi, að til þess þyrfti að koma, sem jeg raunar býst alls ekki við.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar að sinni, en taldi skyldu mína að benda á þetta.