17.02.1920
Efri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

24. mál, varnir gegn spönsku innflúensusýkinni

Eiríkur Einarsson:

Jeg vil leyfa mjer að benda á eitt atriði í þessu máli. Vegna stöðugra samgangna milli Eyja og meginlands er austursýslunum allra sveita hættast við sýkingu nú, og jeg vil bæta því við, að ef til vill sjeu þær nú, af nálægum hjeruðum, einna verst við því búnar að sýkjast. Vöruskortur er austanfjalls allmikill, bæði á því, sem menn og skepnur þurfa, en haglaust víðast og hey á þrotum á mörgum stöðum. En hins vegar eiga austanmenn nokkrar vörubirgðir fyrirliggjandi bæði í Eyjum og hjer, og aðdráttarþörfin afarmikil.

Jeg vil því alvarlega beina því til hæstv. stjórnar að gera ráðstafanir til þess, að austursýslurnar verði ekki látnar komast í þrot, en stjórnin stuðli að því að fóðurbæti og matvöru verði komið þangað, til þess leitað lags sjóleiðis, áður en orðið er um seinan, því ekki verður betra — eins og reynslan sýndi í fyrra, — að afla sjer vista þegar sóttin er komin í algleyming, og betra að hafa þær til, ef til þess kemur. Ættu austanmenn því fremur að geta vænst liðsinnis um flutninga, er á það er litið, að opinber fjárstyrkur til samgangna á sjó hefir hingað til komið þeim að hverfandi litlum notum. Og þótt við vonum, að til þess komi ekki, að sýkin berist austur í sveitir, þá veldur ekki sá er varar.