17.02.1920
Efri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

24. mál, varnir gegn spönsku innflúensusýkinni

Eiríkur Einarsson:

Jeg vona, að engin sýking leiði af samgöngum þeim, sem orðið hafa við Eyjarnar, en var að minnast á, hvaða varúðar þyrfti að neyta, einnig undir þeim kringumstæðum, að illa tækist til og sýkin bærist í austursýslurnar, eða þá að þær yrðu einangraðar til að verjast henni. En mjer þykir leitt. að hv. þm. gáfu mjer ástæðu til að halda, að þeir hugsuðu grunt í þessu máli. Jeg tel, að of seint sje að víða að sjer brýnustu nauðsynjum þegar alt hjeraðið væri orðið sýkt eða einangrað, og á það er litið, hvert vandhæfi er á um flutninga til kauptúnanna austanfjalls, þótt engar farsóttir auki þær hindranir, og liggur í augum uppi, að ef samgöngubann og sóttarvandræði bættust við, þá gæti svo farið, einnig fyrir stjórninni, ætti fyrst þá að liðsinna með aðdrætti, að alt reyndist ómögulegt, og þá seint að iðrast eftir dauðann.

Stjórnin þarf að taka höndum saman við hjeraðsmenn um útvegun á bjargræði og flutning sem allra bráðast, og það því fremur, sem útlit er fyrir mikinn fóðurskort ef harðindin halda áfram.