17.02.1920
Efri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

24. mál, varnir gegn spönsku innflúensusýkinni

Sigurður Stefánsson:

Háttv. þm. Ak. (M. K.) taldi engar líkur til, að veikin væri komin til Reykjavíkur. En það er ekki hægt að byggja á líkum eingöngu, og alls ekki ugglaust um, að pestin sje komin hingað. Því legg jeg til, að Lagarfoss verði settur í sóttkví á fyrstu höfn. Landsstjórnin hefði átt að kyrsetja Lagarfoss, en jeg mun ekki áfella hana, því það er ekki víst, að hún hafi vitað, að veikin gæti verið komin hingað áður en hann fór, því það er ekki ólíklegt, hafi veikin verið komin, að hún berist með Lagarfossi, þar sem fjöldi fólks fór með honum til Ísafjarðar og annað. Jeg sje ekki, að það sje á neinn hátt verjandi, ef nokkuð á að gera á annað borð, að draga að setja skipið í sóttkví þangað til það er komið til Akureyrar og hefir hleypt úr sjer fjölda fólks á leiðinni. Að vísu hefir alt þetta mikinn kostnað í för með sjer, en það dugir ekki að horfa í hann. Jeg held fast við þá till. mína, að skipið verði sett í sóttkví á Ísafirði. Jeg skal ekkert um það segja, hve lengi ætti að halda því í henni. Það mun senn koma á daginn, hvort pestin er komin til Reykjavíkur eða ekki.