26.02.1920
Neðri deild: 15. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (855)

48. mál, laun embættismanna

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg skal taka það fram, að jeg get ekki talað frá þessu sæti eins og skyldi, þar sem jeg hefi ekki talað við stjórnina um það, á hverju hún byggi þennan úrskurð, sem hjer á að fá leiðrjettan. Jeg hefi þess vegna engu yfir að lýsa frá stjórnarinnar hálfu, og get því ekki heldur tekið neina afstöðu viðvíkjandi því, er hv. frsm. (M. P.) virtist gefa í skyn, að stjórnin hefði ekki verið með öllu óhlutdræg, þar sem hún úrskurðaði einum manni aldursbætur, en ekki öðrum, sem eins eða líkt er ástatt fyrir.

Annars lít jeg svo á þetta mál, að það vel megi bíða til næsta þings. Sje ekki, að það sje hundrað í hættunni, þó að sú leiðrjetting, sem hjer á að gera, komi ekki fyr en þá; sjerstaklega líka þegar það getur orkað tvímælis, hvort sú leiðrjetting er rjett eða sanngjörn eða ekki. Og það verður aldrei siglt fyrir öll annes, að gera mönnum jöfnuð. — Jeg skal svo ekki fara frekari orðum um þetta; að eins vekja athygli á því, að það var alveg rjett hjá hv. fjárveitinganefnd að láta leiðrjettinguna frekar koma í lagaformi, ef hún ætti að gerast, heldur en að vera að koma fram með nokkrar lögskýringar.