26.02.1920
Neðri deild: 15. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (856)

48. mál, laun embættismanna

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Það var fallega gert af hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) að gera tilraun til þess að bera blak af fyrverandi stjórn. En það var reyndar óþarfi, þar sem jeg var alls ekki að væna hana um neina hlutdrægni. Jeg var að eins að benda á ósamræmið, sem hjer ætti sjer stað en kom alls ekki nein hlutdrægni í hug.

Hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) talaði enn fremur um, að þetta mætti vel bíða til næsta þings. En nefndin leit öðruvísi á það mál. Henni fanst einmitt, að þetta mætti ekki bíða, því hjer væri um misskilning að ræða, og þann misskilning bæri að laga sem fyrst. — Bæði jeg og ýmsir fleiri líta svo á, að dráttur á að laga þessar misfellur geti vel orðið til þess, að vjer missum þessa menn, sem standa vel í stöðu sinni, og enn fremur, að ekki megi draga að votta þeim samúð, ef þeir hafa orðið fyrir rangsleitni.

Jeg skal svo að lokum geta þess, að það hafa komið fram fleiri erindi um launabætur, sjerstaklega frá póstmönnum utan Reykjavíkur. En tímans vegna lagði nefndin þetta ekki fyrir þingið, en vill láta póststjórnina um það, að ráða fram úr þessu, og gefa henni vald til þess að ráða starfsmenn sína fyrir það kaup, er þeir fást fyrir. Enda liggur það í augum uppi, að ekki má leggja niður þesskonar störf, þó ekki fáist menn í þau fyrir þær fjárhæðir, sem þingið gerði ráð fyrir; verður þá að eins að sjálfsögðu að leita aukafjárveitinga, ef fram úr því fer.