28.02.1920
Efri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (867)

48. mál, laun embættismanna

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg er samdóma hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) um það, að ekki sje rjett að breyta launalögunum á þessu þingi, því að þá yrði að fara út í fleira en í frv. þessu er gert. Á jeg hjer ekki einasta við kennarana, sem ef til vill eiga enn frekari kröfur til þess, að launaákvæði þeirra sjeu athuguð og lagfærð, en póstmennirnir, heldur og við hina þreföldu takmörkun dýrtíðaruppbótarinnar, sem í launalögunum er sett, og gerir dýrtíðaruppbótina því meir óþolandi, sem dýrtíðin vex meir. Frv. þetta á því að mínu áliti ekki fram að ganga, því það eru ekki mestu misfellurnar á launalögunum, sem því er ætlað að bæta úr. Tel jeg sjálfsagt, að næsta Alþingi taki launalögin til meðferðar og bæti úr göllum þeim, sem á þeim eru. Þessu frv. vil jeg hins vegar að vísað sje til stjórnarinnar og leyfi mjer að leggja til, að það verði gert.