18.02.1920
Neðri deild: 6. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (871)

15. mál, biskupskosning

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Í ástæðunum fyrir þessu frv., sem jeg leyfi mjer að flytja, er gerð grein fyrir nokkrum sögulegum breytingum, sem orðið hafa á veitingu biskupsembættisins á Íslandi, en þar er nokkuð fljótt yfir sögu farið, og skal jeg því leyfa mjer að fara nokkrum frekari orðum um það.

Á lýðveldistímanum voru biskupar á Íslandi jafnan kosnir af prestastjettinni, fram á 13. öld. Þá sátu á því tímabili margir ágætismenn að stóli, og biskupsdómurinn stóð þá með miklum blóma. Eftir að Þrándheimsbiskupar fengu forræði yfir íslensku biskupsstólunum tók norræna klerkavaldið að verða íhlutunarsamt um skipun biskupsembættanna íslensku og tók að senda hingað norræna biskupa. Síðustu biskuparnir, sem kosnir voru á lýðveldistímanum, voru þeir Magnús Gissurarson í Skálholti, 1216–1237, og Guðmundur Arason á Hólum, 1203–1237. Þá tóku við norrænir biskupar, sendir hingað ókosnir og óboðnir, Sigvarður Þjettmarsson í Skálholti, 1238–1268, og á Hólum Bótólfur, 1238–1246, og Heinrekur Karlsson, 1247–1260. Á eftir þessum norrænu biskupum, sem allir komu hingað óboðnir og ókosnir, komu íslenskir biskupar aftur, Brandur og Jörundur á Hólum, án efa tilnefndir af hjerlandsmönnum, þótt ekki sje það með berum orðum sagt. Um Árna biskup Þorláksson er það hins vegar berlega sagt, að hann væri tilnefndur hjeðan af landi 1268, en þess þó jafnframt getið, að erkibiskup eigi kosningu að ráða. En þrátt fyrir það reynist þó jafnan síðan svo, að sjeu biskuparnir íslenskir, þá hafa þeir verið kosnir hjer allir, nema Árni Ólafsson. Með berum orðum er sagt, að kosnir eða kjörnir sjeu Ormur Þorsteinsson 1320, Laurentius Kálfsson 1322, Egill 1321, Jón Sigurðsson 1341, Ólafur Rögnvaldsson 1458, Sveinn 1462.

Útlendir biskupar á 14. og 15. öld komust á ýmsan hátt að stólunum, sumir kjörnir af kórsbræðrum, svo sem Auðunn rauði, sumir fyrir fylgi konungsvaldsins, eins og Marcellus, en langflestir þeirra „per provisionem“, þ. e. keyptu sjer veitingarbrjef í páfagarði.

En þrátt fyrir þetta gleymdu Íslendingar aldrei kosningarrjetti sínum. Ögmundur Pálsson og Jón Arason voru báðir kosnir, Ögmundur á Alþingi, Jón af klerkum nyrðra.

Gissur Einarsson var kosinn með ráði Ögmundar biskups.

Árið 1548 var tvöföld kosning, lúthersk og kaþólsk. Kaþólskir kusu Sigurð ábóta, en kosning hans var ónýtt af konungi; lútherskir kusu Martein Einarsson.

Árið 1551 var kosinn Sigurður Jónsson, Arasonar, en konungur ónýtir það og skipar Ólaf Hjaltason. Eftir hann var aftur kosinn Sigurður Jónsson, en það ónýtt og skipaður Guðbrandur Þorláksson. Oddur Einarsson kosinn 1588 og svo allir biskupar síðan fram til 1656; síðastur íslenskra biskupa var kosinn Gísli Þorláksson á Hólum 21. apríl 1656, á almennri prestastefnu á Flugumýri.

Árið 1721 var Jón officialis Halldórsson kosinn á prestastefnu, en það var að engu haft, og konungur skipaði Jón Árnason Skálholtsbiskup.

Þetta var síðasta tilraun prestastjettarinnar íslensku til að halda hinum forna rjetti sínum, og mun sagan jafnan telja þann mann, er þá var kosinn, meðal hinna merkustu klerka þessa lands, en hann þó varð að lúta fyrir danska valdinu.

Með þessum orðum vildi jeg bæta upp það, sem mjer þótti heldur fljótt yfir farið í ástæðunum fyrir frv.; skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um það, hvað kosningu prestastjettarinnar snertir, en að eins geta þess, sem reyndar er fullkunnugt, að á meðan prestar kusu biskupa varð aldrei nein óánægja með valið, heldur ljetu lærðir og leikir sjer það vel lynda. Aftur bólar mjög á óánægju eftir að danska stjórnin fór að blanda sjer í það mál; t. d. þegar Jón Vigfússon var skipaður biskup á Hólum, vakti það mjög mikla gremju í öllu stiftinu. Má að vísu svo vera að það hafi nokkru um valdið, að Norðlendingar voru þá orðnir vanir því, að hafa afkomendur Guðbrands biskups yfir sjer.

Það má nú reyndar segja, að þessi samanburður og þetta yfirlit sje ekki nógu kröftugt til að koma því til leiðar, að þessu frv. verði vel tekið, þar sem vjer höfum nú fengið innlenda stjórn, og því síður gerandi ráð fyrir, að hún beiti valdi sínu á svipaðan hátt og ókunnug og útlend yfirgangsstjórn, sem vjer áttum fyr undir að búa, en þegar litið er á það, sem gerst hefir í þá átt síðan, þá hefir allmjög verið dregið úr veitingarvaldi landsstjórnarinnar á geistlegum embættum, og má því til sönnunar benda á, að það var leitt í lög fyrir allmörgum árum, að söfnuðir kjósi sjálfir presta sína. Þó var kosningarrjettur safnaðanna eftir þeim lögum allmjög takmarkaður, með því stjórnin tilnefndi 3 af umsækjendunum, ef fleiri voru, og máttu safnaðarmenn að eins velja um þá, en brátt urðu söfnuðirnir óánægðir með þann ruðningarrjett stjórnarinnar, og var því með lögum 17. nóv. 1909, um veitingu prestakalla, það ákvæði numið úr gildi, og hefir síðan ekki borið á neinni óánægju með prestskosningarlögin.

Þá vildi jeg nefna lögin frá 30. júlí 1909, um vígslubiskupa. Með þeim lögum er skipun þessara embættismanna lögð undir atkv. prestastjettarinnar. Að vísu er verksvið þeirra ekki stórt, en þó allveglegt; en þó er það svo, að Alþingi hefir ekki litist að láta stjórnina skipa þessa embættismenn, heldur leggja skipun þeirra undir atkv. prestanna. — Báðar þessar breytingar ganga í þá átt, að losa kirkjuna við íhlutun ríkisvaldsins í embættaveitingum hennar, að svo miklu leyti sem samrýmst getur hinu núverandi þjóðkirkjufyrirkomulagi.

En það er fleira að athuga við þetta mál, og það kom mjer einkum og sjer í lagi til að bera þetta frv. fram.

Það er alkunna, að á síðustu árum hefir komið upp allmikill ágreiningur í íslensku þjóðkirkjunni um ýms mjög þýðingarmikil atriði í kenningum hennar, er snerta aðalkjarna kristindómsins, og hefir þessi ágreiningur skift prestunum í tvo flokka, nýguðfræðinga og gamalguðfræðinga. Jeg skal ekkert um það segja, hvor þessara flokka sje sterkari, en hitt er víst, að þessi nýja guðfræði, sem hefir verið kölluð vantrúarstefnan þýska, hefir náð allmiklum tökum á hinum yngri prestum.

En þessi hreyfing bendir í þá átt, að það geti verið varhugavert, að landsstjórnin hafi alveg takmarkalaust vald um skipun biskupsembættisins. Það er í alla staði eðlilegt, að þessar stefnur komi til greina, þegar skipa skal yfirhirði íslensku þjóðkirkjunnar, og þá er ekkert eðlilegra en að sú stefnan, sem fleiri hefir fylgismennina, ráði nokkru um skipun biskupsembættisins. En ef stjórnin hefir óskorað vald til að skipa hann, getur svo farið, að hann sje ekki skipaður að vilja meiri hluta prestastjettarinnar. Enn fremur getur það verið, að stjórnin sje ákafur fylgjandi annarshvors flokksins, en þetta gæti þá líka komið í bága við vilja meiri hl. prestanna og sá biskup skipaður, sem stæði á öndverðum meið við prestastjettina um höfuðatriði kristindómsins. Í veg fyrir þetta vildi jeg koma með frv. þessu. En það er hvorki staður nje stund til að fara út í þann ágreining hjer, enda held jeg, að nóg sje að taka þessi atriði fram, og vil jeg segja, að það gæti haft óheppileg áhrif á samvinnu biskups við prestana til eflingar kirkju og kristindómi, ef hann verður í algerðum minni hluta við prestastjettina. Það getur líka vel svo farið, að sá ágreiningur, sem nú er reyndar töluverður, vaxi, og ef hann heldur fer vaxandi en minkandi, er ekki nema alveg eðlilegt, að meiri hl. prestastjettarinnar ráði biskupskosningu. Mjer finst þetta svo eðlilegt, að því verði ekki í móti mælt.

En þó maður hverfi nú alveg frá þessum ágreiningi, má aftur líta á það, hvort það sje alveg eins vel trygt, að biskupsdómurinn sje í höndum vel hæfra manna, með því, að biskupinn sje kosinn af prestum. Þá get jeg ekki ætlað annað en að það sje fulltrygt með kosningu prestanna. Jeg vil ekki gera svo lítið úr prestastjettinni íslensku, þeirri núverandi eða þeirri komandi, að hún hafi ekki það helst fyrir augum, sem kirkju og kristindómi er til eflingar, og láti það umfram alt ráða kosningu sinni.

Jeg skal svo ekki þreyta hv. deildarmenn á lengri ræðu, en það verð jeg að segja, að mjer kemur það mjög á óvart, ef margir verða á móti þessu frv., sem taka vill upp gamlan og góðan sið í kirkju vorri, er lagðist niður fyrir erlent ofríki.