18.02.1920
Neðri deild: 6. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (873)

15. mál, biskupskosning

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Það er rjett athugað hjá 1. þm. Rang. (Gunn. S.), að það mun ekki vinnast tími til að gera frv. þetta svo úr garði, að það nái fram að ganga á þessu þingi. Jeg býst við, að því verði vísað til allsherjarnefndar. Og jeg vonast til, að hún láti frv. ekki standa í vegi fyrir því, að þinginu verði slitið innan þess tíma, sem gert var ráð fyrir. En þrátt fyrir það, að jeg búist við, að málið mundi sæta þessari meðferð, tel jeg vel farið, að það hefir fram komið á þessu þingi; það er þá hægur nær að leggja það fyrir næsta þing. Prestastefnan næsta getur þá sagt álit sitt á málinu, því að mjer þykir líklegt, að málið þyki ekki svo ómerkilegt, að hún vilji ekki segja álit sitt á því. Tíminn til næsta þings getur því orðið til að athuga málið og bæta úr misfellum þeim, sem á frv. kunna að vera. En jeg skal taka það fram, að jeg bjóst ekki við, að málið gengi fram á þessu þingi.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) talaði að vísu hlýlega um málið, en var því þó hins vegar heldur mótfallinn. Kvað hann, að þetta gæfi prestastjettinni of óskorað vald um biskupsvalið. Þessarar skoðunar var jeg líka fyrst í stað. En þegar jeg athugaði málið betur, fjell jeg frá henni. Vjer vitum, að fyrrum fengu söfnuðirnir ekki að velja sjer presta. Þetta vakti einatt megna óánægju, og með lögum frá 16. nóv. 1907 var söfnuðum veitt leyfi til að velja sjer sjálfir prestinn. Þetta þótti og þykir sjálfsagt. Mjer virðist langeðlilegast, að biskupskosningin hlíti þannig sömu reglu, að prestar landsins fái að velja sjer biskup.

Mjer heyrðist hæstv. forsætisráðherra (J. M.) segja, að biskupar hefðu ekki verið kosnir fyrrum. En eins og og jeg tók fram, þá tíðkaðist það þó hjer á landi fram á miðja 17. öld. Síðasti biskupinn, sem þannig var valinn, var Gísli biskup Jónsson, er kjörinn var til biskups á almennri prestastefnu að Flugumýri 23. apríl 1666.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Jeg vildi að lokum geta þess, að mjer finst rökstudd dagskrá ónauðsynleg, úr því að jeg hefi lýst þessu yfir.