24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (884)

41. mál, Íslensk peningaslátta

Forsætisráðherra (J. M.):

Ráðuneytið getur ekki haft neitt á móti því að fá heimildina; hitt er eftir að vita, hvort nokkur tiltök eru að nota hana. Jeg hefi lítillega athugað málið og minst á það við fjármálamenn hjerlendis og verslunarmenn. Telja þeir örðugt að vita, hver áhrif sjerstök, ísl. peningaslátta hefði á gengi peninga vorra. Það er mjög erfitt að segja fyrir um gengi íslenskrar krónu. Þar að auki eru miklir erfiðleikar á framkvæmdinni nú. Meðal annars er örðugt að fá gull og silfur til sláttu, og málmverðið í peningunum er meira en peningarnir nema. Þar við bætist svo kostnaðurinn við sláttuna. Samt er rjett, að stjórnin athugi málið.