27.02.1920
Efri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (898)

41. mál, Íslensk peningaslátta

Forsætisráðherra (J. M.):

Eins og jeg hefi tekið fram í hv. Nd., getur stjórnin ekkert haft á móti því, að henni sje veitt heimild sú, er hjer um ræðir.

En, eins og jeg líka tók fram þar, þá er ekki hægt að búast við því, að málinu verði hrundið í framkvæmd í náinni framtíð. Ástæðan er sú, að efnið, silfur og gull, er nú dýrara en peningarnir sjálfir; hjer við bætist einnig kostnaður við að útvega áhöld. Sem stendur myndi því peningaslátta verða óhagur fyrir ríkið.

Um gengismuninn og það, sem ræður honum, er erfitt að segja; flestir muni þó vera þeirrar skoðunar, að hann miðist við innfluttar og útfluttar vörur. Það er auðvitað ómögulegt að segja um það, hvort gengi íslenskrar krónu myndi verða hærra eða lægra en danskrar krónu, ef myntsláttan yrði aðskilin. Jeg hefi spurst fyrir um þetta hjá fjármálamönnum, sjerstaklega hjerlendum, og hafa þeir ekki þorað að ráða til þess að setja á stofn peningasláttu.

En stjórnin mun athuga málið eftir föngum, þótt líklega verði ekki meira að gert til næsta þings.