10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

Rannsókn kjörbréfa

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg væri samdóma háttv. þm. Dala. (B. J.), ef eigi væri um annað að ræða en um atkvæðagreiðslu þessara 15 manna, er taldir eru að hafa kosið ólöglega. Því þá væri frestunin ástæðulaus. En auk þessa fylgdu útskriftinni úr gerðabók yfirkjörstjórnar yfir 50 vafaseðla, þar sem um ýmsar samskonar misfellur er að ræða, sem venjulega eru þess valdandi, að seðlar eru ekki teknir gildir. Þess vegna tel jeg sjálfsagt, að þingið fari hjer gætilega að, því sje úrskurðað um seðla og þeir teknir gildir í eitt skifti, án rækilegrar athugunar, sem eru útbúnir öðruvísi en vera ber, eða á annan hátt gallaðir, þá getur einnig oftar farið á sömu leið. Og þess vegna tel jeg nauðsynlegt, að úrskurðinum verði frestað þar til misfellurnar hafa vandlega verið aðgættar.