26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (908)

47. mál, bankafyrirtæki á Íslandi

Flm. (Bjarni Jónsson):

Það má ekki minna vera, fyrst einn af hæstv. ráðh. ljet það í ljós, en að jeg bendi á, að það var fullkomlega rjettmætt, sem Pyþagoras gerði, að leggja mikla áherslu á tölur. Hann taldi tölur vera insta eðli hlutanna, og tók eftir því, að hlutfallið ræður mestu um málin.

Ef menn lesa hagskýrslur þessa lands og ganga gegnum þær tölur, sem þar eru, þá munu þeir um leið sjá fyrir augum sjer fjárhópana úti um landið, skipin á miðunum, og fólkið, starfandi að hinum ýmsu atvinnuvegum á landi.

En það er ekki að eins í þessu tilfelli, að hagskýrslutölur eru eðlilegar; þær eru það líka þegar verið er að tala um banka. Bankar eru til þess að lána fje, en frá þeim liggja taugar inn á hvers manns heimili, og það er ekki síður fögur mynd, sem ætti að vaka fyrir mönnum, þegar þeir lesa bankatölur, því þá sjá menn, hve þjóðinni er nauðsynlegt að afla peninga, afls þeirra hluta, er gera skal, og þá ætti að vera því meiri ástæða til fyrir þingið, að æðakerfi þjóðarinnar, það er að segja viðskiftalífið, sje heilt og gott, og þá er líka vitanlegt, að slæmt væri, ef gallar slæddust inn í þetta æðakerfi; þess vegna held jeg, að það, sem farið er fram á í þessu frv., sje alveg rjett, og nauðsynlegt fyrir stjórnina að hafa nákvæmt eftirlit með allri þess háttar starfsemi. Jeg á ekki við, þótt hver og einn þurfi leyfi til að koma á fót slíkri starfsemi, að þá þurfi það ekki að vera neitt haft á viðskiftalífinu. Nú, það sýnist líka hafa verið litið svo á þetta áður, því að jeg man eftir, að ýms höft hafa verið lögð á að stofna sparisjóði, og því mætti líka heimta einhverja tryggingu af þeim mönnum, sem vilja stofna banka hjer á landi, en nú mun það vera svo, að ef einhver vill stofna banka, þá má hann það, ef hann vill leggja sig undir sömu lög og aðrir menn, ekki biðja um skattfrelsi eða önnur fríðindi.

Nú dettur mjer í hug, að ef jeg væri ríkur maður, þá myndi jeg kannske vilja ná undir mig öllu Suðurlandsundirlendinu. Þá mundi jeg stofna banka, láta stór lán gegn veði í þessum fasteignum, og svo, ef jeg væri dálítið verri maður en jeg er, ganga að öllu saman, kippa að mjer hendinni og hafa svo alt einn; þetta er ekkert óhugsanlegt bragð, ef sá, er beitir, horfir ekki í aurana. En slíkt á ekki að geta komið fyrir. Þess vegna á stjórnin að hafa leyfi til að hafa eftirlit með öllum bankastofnunum, sem starfa í landinu, og hún á að hafa fullkominn rjett til að líta á alla þeirra starfsemi og rannsaka hana niður til grunna, eða láta trúnaðarmenn sína gera það, og hún á að hafa heimild til að kippa leyfinu af þessum stofnunum, ef henni finst eitthvað vera skaðsamlegt í starfsemi þeirra, svo að stóru nemi, eða ef alþjóðarháski getur stafað af því.

Nú vil jeg játa það um þetta frv., eins og annað frv. viðvíkjandi Landsbankanum, sem jeg bar fram, að jeg hefi ekki haft tíma til að semja þau, og ekki heldur til að leita annars, sem gæti samið þau fullvel. Því verður þetta meira sem stefna, og mundi jeg láta mjer nægja, þó að ekki yrði annað að gert en að menn vísuðu frá sjer málinu til næsta þings.

Jeg skal svo ekki þreyta menn á lengri ræðu að þessu sinni, en vænti, að menn sjeu svo varkárir fyrir þetta land, að þeir vilji leggja drög til, að slík lög komi fram.