28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (916)

57. mál, peningamálanefnd

Jakob Möller:

Jeg greiddi atkvæði á móti því, að þetta mál yrði tekið hjer til umræðu, og stend nú upp að eins til þess, að gera nokkra grein fyrir því atkvæði mínu.

Mjer finst þetta frv. um peningamálanefnd vera hálfgert fálm út í loftið, og hugsa, að það sje ef til vill fram komið af misskilningi. Stjórnin hefir sjeð, að slíkar ráðstafanir hafa verið gerðar í nágrannalöndunum, og því haldið, að sjálfsagt væri að gera þær hjer. En ástæðurnar, sem eru til slíkra „ráða“ erlendis, eru ekki til hjer. Þar eru þær settar til að sporna við því, að peningarnir falli niður úr öllu valdi, en jeg sje ekki, að við gætum gert neinar þær ráðstafanir hjer, sem breytt gætu gengi danskrar myntar. Jeg hygg, að það væri nægilegt fyrir stjórnina að ráðfæra sig við bankana og verslunarráðið um þessi mál, en finst, að óþarft sje að skipa nú nýja nefnd til þess aðallega, að hirða einhver laun úr landssjóði, og ef til vill að baka landsmönnum ýms óþægindi og fyrirhöfn, sem hægt væri að komast hjá.