28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (919)

57. mál, peningamálanefnd

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Háttv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) talaði um þetta mál sem fálm út í loftið. Þetta eru sterk orð, og verð jeg að mótmæla þeim. Jeg skal játa það, að jeg er ekki mikið inni í þessu máli og hefi ekki haft það til langrar íhugunar. En það eru bankarnir, sem hafa komið málinu á hreyfing og verslunarráðið er því einnig hlynt. Þegar þessar tvær stofnanir hafa lagt þetta til, þá er það undarlegt, ef hver og einn getur kallað það fálm út í bláinn.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) talaði mest um, hvað nefndin gæti gert ilt. Allir, sem eitthvert vald hafa, geta auðvitað gert ilt, ef þeir vilja hafa sig til þess, og það mun oftast vera rjett hlutfall milli þess, sem menn geta gert ilt og gott, og víst er um það, að sá, sem ekki getur gert ilt, kemur litlu góðu til leiðar. Spurningin verður því um það, hvort nefndin geti gert gagn og hvort þingið treysti stjórninni til að velja þá menn í nefndina, sem geri gagn fremur en skaða.

Háttv. frsm. (J. A. J.) tók það fram, hvað slíkar nefndir gera í útlöndum og hvaða gagn þær gætu gert hjer. Þetta er ófriðarráðstöfun, því ástandið í heiminum er enn þá stríðsástand, þó friður sje saminn að nafni til. Þetta er beint framhald af því, sem gert hefir verið 1914–1917. Það hefir orðið að höggva nærri einstaklingnum og jafnvel taka af honum eignaráð, en almenningsheill hefir krafist þessa. Horfurnar hafa versnað nú um hríð; skuldir við útlönd hafa aukist, og ekki horfur á því um sumt af vörum vorum, að við getum selt þær fyrir gott verð. Síldin er óseld, og þó það heyrist, að hún muni ef til vill komast í eitthvert verð, þá er það hæpið, og enn hæpnara, að verð fáist fyrir hana fyrst um sinn. Kjötsalan hefir stöðvast, og fleira mætti nefna. Aðflutningur þar á móti minkar ekki, heldur síhækkar í verði, og eru þá ekki lengi að safnast skuldir. Við þurfum að flytja mikið inn á næstu árum, fyrst og fremst til matar og annara þarfa, og atvinnuvegirnir þarfnast stórfje. Eitt er það enn, sem kallar að, og það eru húsabyggingar. Við þurfum að bæta okkar húsakynni, nærri byggja upp alt landið. Þegar svo er ástatt, þá er full ástæða til að fara eins vel með fje sitt og hæg er, reyna að spara eftir föngum það, sem er hjákvæmilegt, til hins, sem er óhjákvæmilegt. Þess vegna er líka nauðsynlegt að hafa menn sjer til aðstoðar, sem hafa yfirlit yfir öll peningamálin og hafa vald til að kippa í taumana, ef mikið liggur við.