28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (922)

57. mál, peningamálanefnd

Jakob Möller:

Mjer kom það ekki á óvart, þó það sannaðist við frekari umræður, að það væri rjett til getið af mjer, að þessi fyrirhugaða nefndarskipun mundi vera „fálm út í loftið“. Nú er það komið á daginn. Meðmælendum frv. kemur ekki saman um, hvað nefndin eigi aðallega að hafa fyrir stafni. Þeir virðast ekki vita hvað þeir vilja, en vilja sennilega bara reyna að gera eitthvað, eins og aðrar þjóðir, án tillits til ólíkrar aðstöðu. Háttv. flm. (J. A. J.) heldur, að nefndin eigi að hafa sama verksvið og „Valutaraadet“ í Danmörku og önnur slík ráð, sem skipuð hafa verið í öðrum löndum. En þau „ráð“ hafa það verk eitt með höndum, að reyna að hafa hemil á verðfalli gjaldeyrisins. Við höfum enga sjerstaka mynt, eða gjaldeyri, og gætum því að eins haft áhrif á verðgildi danskrar myntar, að verslunar okkar við útlönd gætti að nokkrum verulegum mun í allri verslunarumsetningu Danmerkur og Íslands saman lagðri. En svo er ekki. Nefndin verður þess vegna hjegómi, ef hún á að vera verðgildisnefnd, og þá er nafnið peningamálanefnd líka villandi.

Háttv. flm. (J. A. J.) staðhæfði í annan stað, að nefndin ætti ekki að hafa nein afskifti af því, við hvaða lönd menn versluðu. Hjer held jeg að háttv. flm. (J. A. J.) misskilji sjálfan sig. Nefndin á vitanlega að hafa afskifti af þessu, og t. d. forðast viðskifti við Ameríku, meðan dollarinn er svo hár, hefta vörukaup þaðan eins og frekast er unt, til þess að draga úr eftirspurninni eftir ameríska gjaldeyrinum, svo að hann falli í verði. Ef hún gerði þetta ekki, þá er fyrirsjáanlegt, að hún gæti engin áhrif haft á verðgildi myntarinnar, eins og hv. flm. (J. A. J.) þó ætlast til. Það er því augljóst, að nefndin hlýtur að leggja slíkar hömlur á viðskiftin við önnur lönd, og afskifti hennar því að verða allbagaleg.

Aftur á móti neitar hæstv. forsætisráðh. (J. M.) því, að nefndinni sje ætlað að hafa nokkur áhrif á gengi myntar. Fyrir honum vakir það, að koma í veg fyrir, að peningum verði eytt til að kaupa óþarfar vörur, svo að ef til vill verði skortur á peningum til að kaupa nauðsynjavörur. En stjórnin hefir þegar fengið heimild til þess að banna innflutning á öllum óþörfum vörum, og ætti með því að vera sett nægilega undir þann leka.

Af þessu finst mjer það augljóst, að hvorki hæstv. stjórn nje hv. flutningsmenn hafi gert sjer nægilega ljóst, hvað nefndin eigi að afreka, og verður nefndarskipunin þá „fálm“ eitt.

Það hefir verið um það rætt, að þetta væri gert eftir tilmælum eða að ráði bankanna og verslunarráðsins. Jeg vildi gjarnan fá að vita, hvort þessi tilmæli hafa verið pöntuð, eða þau komið af sjálfsdáðum. Mjer hefir skilist það á ýmsu, að stjórnin hafi sjálf viljað fá þessa nefnd, að eins af því að aðrar þjóðir settu slíkar nefndir. En stjórnin virðist ekki hafa athugað, að hjer stendur alt öðruvísi á en í öðrum löndum, sem hafa sjerstaka mynt.

Þess ber líka vel að gæta, sem hv. þm. Dala. (B. J.) hefir bent á, að þessi heimild til nefndarskipunar yrði til þess að firra stjórnina allri ábyrgð á því, sem þessi væntanlega nefnd kynni að gera, en á tímum sem þessum á stjórnin að hafa fulla ábyrgð á öllum sínum gerðum og fyrirætlunum, ekki síst þegar þær eru eins fálmkendar eins og hjer á sjer stað. Ef stjórnin kemst að einhverri ákveðinni niðurstöðu um, að brýn þörf sje á því, að gera eitthvað í þessa átt, þá getur hún gert það í samráði við bankana og verslunarráðið á sína ábyrgð. Þingið má ekki taka þá ábyrgð á sig svona fyrirfram og algerlega blindandi.