28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (924)

57. mál, peningamálanefnd

Bjarni Jónsson:

Mjer þótti það kynlegt, er hv. frsm. (J. A. J.) taldi það ófært, að stjórnin skifti sjer af eða hefði sjálf á hendi það starf, sem ætlað er sjerstakri nefnd. Og mjer þykir þetta því kynlegra þess vegna, að nýlega hafa verið samþ. lög, sem takmarka innflutning á óþarfavöru, þar sem ekki er gert ráð fyrir, að sjerstök nefnd hafi hönd í bagga. Og þá neyðist stjórnin til að skifta sjer af því, hverskonar vörur eru fluttar til landsins. En það er mergurinn málsins. Ef peningunum er eytt til þess að kaupa óþarfa vöru, þá á stjórnin að nota þá heimild, sem hún hefir, til þess að takmarka eða banna innflutning á vörunni. — Það væri því stjórninni að kenna, ef peningar væru ekki til í landinu, til þess að borga nauðsynjavöru. Hún hefir enga heimild til að fela það nefnd.

Hv. frsm. (J. A. J.) sagði, að það væri misskilningur, að nefndin ætti að takmarka það, við hvaða lönd væri skift. En hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) hefir nú sýnt fram á, að þetta er aðalhlutverk hennar.

Annars vildi jeg spyrja um það, í sambandi við ákvæði 1. gr., að stjórnin ákveði starfssvið og vald nefndarinnar, hvort þetta á að skiljast svo, að stjórnin fái nefndinni takmarkalaust vald, eða takmarkast það af stjórnarskrá og samningi? Mjer skilst, að hún geti fengið henni ótakmarkað vald yfir Landsbankanum, en ekki yfir Íslandsbanka. Íslandsbanki hefir sín rjettindi, og hún gæti því að eins verið að baksa með þennan eina, magnlausa banka, sem landið á. Jeg er algerlega á móti því, að stjórninni sje leyft að afhenda nefnd það vald, sem þing og stjórn hefir. Jeg vil, að stjórnin annist þetta, en vitanlega getur hún fengið sjer bestu menn, sem völ er á, til aðstoðar, en þeir bera enga ábyrgð gagnvart þinginu, heldur að eins stjórnin. Ef nefnd væri hins vegar fengið þetta vald í hendur, gæti stjórnin skotið sjer undan ábyrgð í þessu máli, sem snertir hag þjóðarinnar. Og eins og jeg sagði áðan, leggja menn mesta áherslu á þær hliðar lífsins, sem vita að buddunni.

Eins og jeg gat um áðan, hefir stjórnin fengið vald til að takmarka innflutning á óþarfavöru; þetta er nægilegt, og alt, sem þarf að gera.

Annars má ef til vill minnast á það, að fyrir mörgum árum afhenti stjórnin vald sitt til nefndar, en jeg vænti, að mönnum sje það svo minnisstætt, að þeir verði mjer sammála um, að slík „delegatio“ eigi ekki að eiga sjer stað, og var hún þó í smærri stíl en hjer er gert ráð fyrir. Þessi fyrirhugaða nefnd á hvorki meira nje minna en að ráða því, hvað hver og einn kaupir. Hún getur t. d. bannað mjer að kaupa botnvörpuskip. (Forsætisráðh.: Það er búið). Það er þó stjórnin, sem hefir ábyrgð á því, eftir hinum lögunum. Og jeg get vel ímyndað mjer, að sú þjóð, sem hefir látið landið bergmála út af innflutningsbanni á áfengi, mundi ekki taka því hljóðalaust, ef nefnd ætti að ákveða það, við hverja hún mætti versla.