28.02.1920
Neðri deild: 19. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (931)

57. mál, peningamálanefnd

Jakob Möller:

Jeg ætlaði að eins að segja nokkur orð um það, sem hv. flm. (J. A. J.) upplýsti um þetta mál í síðustu ræðu sinni. — Það, sem hann sagði, hafði hann eftir einhverju símskeyti frá Kaupmannahöfn, sem var á þá leið, að óvíst væri, hvort maður, sem ætti peninga í banka í Danmörku, gæti fengið að ráðstafa þeim eins og hann kynni að vilja. Jeg vildi benda á, hve fráleitt væri að byggja á slíkum skeytum, sem enginn veit frá hverjum eru. — Mjer þykir ólíklegt, að til þess geti komið á friðartímum, að borgurum annara ríkja verði neitað um það, að ráðstafa inneign sinni í dönskum bönkum á hvern hátt sem þeir vildu, og mun jeg því ekki láta nefnt skeyti hafa nein áhrif á atkvæði mitt í þessu máli.