28.02.1920
Neðri deild: 19. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (933)

57. mál, peningamálanefnd

Bjarni Jónsson:

Ef slíku gerræði ætti að beita, sem hjer er talað um, við Íslendinga, gætum við litið svo á, sem friðinum væri slitið, og eru að engu hafandi slíkar frjettir, en láti danska stjórnin þetta frjettast, er ekki annað en að íslenska stjórnin láti hina dönsku vita, að einnig verði kyrsett það fje, sem danskir menn eiga hjá íslenskum mönnum, og mun stjórn vorri vel til þess trúandi að láta þá svo búið standa og alt bíða til næsta þings.

En það, sem jeg legg áherslu á, er að stjórnin beri ábyrgðina á öllu, en ekki nefndin, en hún ber ábyrgðina gagnvart dómstólunum, og það skyldi þingið aldrei gera, að láta svo af hendi vald sitt, en stjórnin getur svo fjarska vel fengið þá allra duglegustu og greindustu menn í sína þjónustu, og hún getur líka fengið heimild til að borga þeim vinnu sína, en hún á sjálf að hafa ábyrgðina; þá fyrst má treysta því, að landsmönnum verði ekki gerður neinn óleikur eða skaði.

Hvað snertir stjórnmálatraust á þessari stjórn, þá hefi jeg það ekki, en jeg treysti henni til að binda sig aldrei við neitt, sem yrði landinu til skaða, en mönnunum í nefndinni trúi jeg ekki, því þegar þeir eru lausir við alla ábyrgð, þá gera þeir það, sem þeim sjálfum sýnist, og þó að það væri sagt í spaugi við hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) eða snúið út úr fyrir honum, þá er það þó svo, að menn gera ilt, ef menn geta það. Það, sem bæði einstakir menn og stjórnir sitja yfir, er að enginn geti gert landinu skaða, en í því efni er ekkert betra en að þing og stjórn í sameiningu gæti þeirra mála, er þjóðina varða mestu, og furðar mig mjög á því, ef þeir hv. þm., sem hafa lofað stjórninni stuðningi, ættu ekki að geta treyst henni til slíkra hluta, þar sem við, sem ekki höfum lofað henni trausti, getum trúað henni. Veit jeg ekki, hvað það á að þýða að vera að tala um vantraust á stjórn, í því máli, þar sem hennar svæsnustu mótstöðumenn jafnvel segja, að þeir muni ekki væna hana um slíkt.