26.02.1920
Neðri deild: 15. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (944)

53. mál, fótboltaferð um Austfirði

Þorsteinn Jónsson:

Eins og fram hefir verið tekið, var samgöngumálanefndin ekki á eitt sátt um það, hvort veita skyldi fje til nýrra flóabáta eða ekki, en aftur var hún öll þeirrar skoðunar, að þeir bátar, sem hafa haft styrk, hafi ekki fullnægt þeim þörfum, sem hjer eru. Það var búist við því á þingi í fyrra, að samgöngur í ár yrðu betri en raun hefir orðið á, sjerstaklega á Austfjörðum. Þá var búist við því, að 3 skip gengju þar um slóðir, Sterling, Suðurland og skip Þorsteins Jónssonar. Vegna þess komum við ekki með neina fjárbeiðni inn á þingið í sumar sem leið. Þó okkar till. nú verði samþ., þá er upphæðin samt svo lítil, að jeg get efað, að nokkur sje fáanlegur til að rækja ferðirnar fyrir svo lítið; í fyrra var það mjög erfitt og bátarnir litlir og ónógir. Viðvíkjandi því, sem háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) sagði, að yrði till. okkar samþ., þá yrði að breyta áætlun Sterlings, þá lít jeg svo á, að ekki sje hægt að draga nokkrar hafnir undan, þó styrkur fengist. Fyrir okkur vakir það, að flóabáturinn gangi á milli þeirra hafna, sem Sterling kemur aldrei á; vil jeg nefna Skála á Langanesi, sem er einna mest fiskihöfn á Austurlandi, og þar sem útgerðin vex ár frá ári. Aðrar hafnir, sem nauðsynlegt væri að flóabátur kæmi á, eru hafnirnar við Hjeraðsflóa. Eins og jeg tók fram áðan, þá er mjög tvísýnt, að nokkur fáist til að gera út bát fyrir svo lítið, og okkur því ger hinn mesti óleikur, ef dregið væri af þeim höfnum, sem Sterling á nú að koma á.

Styrkurinn verður þó altaf betri en ekkert — og betra að veifa röngu trje en engu.