26.02.1920
Neðri deild: 15. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (949)

53. mál, fótboltaferð um Austfirði

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) taldi það vera að fara aftan að siðunum að veita styrk til bátaferða áður en bátur væri fenginn. En þar er því til að svara, að báturinn er þegar fenginn, eða að minsta kosti fengið fast tilboð.

Þessari viðbáru þarf jeg því eigi að svara frekar, því ef viðkomustöðum og viðkomum standferðaskipanna yrði fjölgað norðanlands, en fækkað austanlands, yrði í raun og veru ekkert gert fyrir Austfirði, með því að láta þá hafa þennan styrk.

Annars þýðir ekki að vera að tala um að vera fækka Sterlingsferðunum til Austurlands, því bæði er það, að Austfirðir eru út undan nú hvað samgöngur snertir á sjó, og svo er aðstaða þess landshluta, eins og öllum er kunnugt, þannig, að hann verður að hafa góðar samgöngur á sjó, og þýðir því ekkert að bera Austfirði saman við önnur hjeruð, sem hafa góðar samgöngur á landi. Í sjálfu sjer þýðir ekkert að fjölyrða um þetta, því jeg hygg, að flestir hafi áttað sig á jafneinföldu máli og sjeu ráðnir, hvernig þeir greiði atkvæði sitt, en vildi samt víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.) sagði, að haggað yrði jafnvægi því, er þegar væri, ef þessi styrkur yrði veittur. Þetta er nú ekki rjett, því þessi landshluti, sem hjer um ræðir, varð einmitt afskiftur, ef fjárveitingin á síðasta þingi er athuguð.

En svo er þá annað, sem sje það, að þá er búið að hagga algerlega jafnvæginu með fjárveitingunni til Ísafjarðarbátsins, sem var svo að segja verið að enda við að samþykkja. Ef svo ætti eftir það að fara að fella burtu þennan litla styrk til 1/3 hluta landsins, þá vil jeg taka mjer orð hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) í munn og segja, að hjer sje þá verið að fara aftan að siðunum. Að öðru leyti vil jeg ekki orðlengja þetta frekar, en láta skeika að sköpuðu með úrslitin.