14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (968)

2. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hygg, að það sje ekki ástæða til þess fyrir mig, eins og nú stendur á, að fara að eyða mörgum orðum um þetta frv. Það er gamall kunningi og lá hjer fyrir síðasta þingi. Stjórnin hefir eigi gert annað en athuga málið, en eigi treyst sjer til að koma fram með heilsteypt frv. til vatnalaga að þessu sinni. Stjórnin hefir því eigi farið eins langt eins og ætlast var til, og hefir margt að því stuðlað. Tíminn hefir verið naumur og margt um að hugsa, en slíkt stórmál og þetta krefst þess fyrst og fremst, að um það sje hugsað vel og lengi, ef koma á með tillögur í því, sem fara í verulega aðra stefnu en þær, sem þegar liggja fyrir, eftir starf fossanefndarinnar. Önnur ástæða stjórnarinnar er sú, að örðugt hefir verið að afla sjer ýmsra upplýsinga, og tæki og gögn af skornum skamti. Þriðja ástæðan var sú, að þar eð sjórnarskifti voru í aðsigi, þá gat atvinnumálaráðherra ekki vænst þess að geta fylgt frv. eftir. Jeg tel æskilegt, og vil gera það að till. minni, að kosin verði 7 manna nefnd í málið, til að athuga það og koma fram með till. í því.

Jeg vil taka það fram, að um þetta er öll stjórnin sammála, og jafnframt geta þess, að fjármálaráðherra hefir ekki skuldbundið sig til að vera frv. fylgjandi.