14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (970)

2. mál, vatnalög

Bjarni Jónsson:

Jeg heyrði á atvinnumálaráðh. (S. J.), að stjórnin hefir ekki haft tíma til að semja samfelda vatnalöggjöf, en kosið þetta í staðinn. Jeg sje, að ástæðan til þess, að stjórnin hefir valið minni hl. frv., er sú, að hún hefir ekki haft tíma til að sjá, að meiri hl. frv. er heill lagabálkur, frv. um vatnastjórn, frv. um tryggingu, hvernig skuli ganga frá viðbúnaði öllum, og frv. um rafstæði. Þykir mjer undarlegt, að stjórnin skuli ekki hafa haft tíma til að bera þau fram. Þau eru samin af þar til hæfum mönnum, og eru ekki neitt ágreiningsatriði þó að meiri hluti hafi borið þau fram.

Það þykir mjer þó hvað undarlegast, að stjórnin skuli ekki hafa lagt fyrir þingið frv. um rannsókn á virkjun Sogsins. Undravert að stjórnin skuli hafa gleymt að bera það fram, sem er höfuðatriði málsins, því jeg geri ráð fyrir, að engum hafi verið svo bráðmál að kasta því í útlenda auðmenn, að ekki hefði verið fært að gera áætlun um, hve dýrt hefði verið að virkja það.

Mig undrar það, að stjórninni skyldi ekki vinnast tími til að leggja þetta frv. fram, um rannsókn Sogsfossanna. En það er ef til vill bygt á leyfinu, er hún fjekk í fyrra, með þingsáltill. Jeg hjelt samt, að hún mundi heldur kjósa að fá lög. Sýnist líka kynlegt, að stjórnin skyldi ekki heldur velja vatnalagafrv. meiri hl., sem er miklu fyllra og ítarlegra en frv. minni hl.

Ef stjórninni hefði verið svo umhugað um það að ákveða með lögum, að einstaklingarnir ættu vatn alt og vatnsorku alla, þá var það einnig hægt, þó frv. meiri hl. hefði verið tekið, því eigi var vandinn annar nje meiri en sá, að breyta 2 greinum frv. Og þá ánægju hefði stjórnin getað veitt sjer að lýsa yfir skoðun sinni, án þess að slökkva miklum tíma niður, þar sem hálfur klukkutími mundi hafa nægt.

Annars skal jeg lýsa því yfir, að mjer þykir allundarlegt, þegar deila hefir risið um það, hvort einstaklingarnir ættu rennandi vatn, að stjórnin skuli þá láta sjer svo ant um að lýsa yfir sínum skilningi, í frumvarpi sínu. Er svo að sjá, sem hún vilji gera sig að dómstóli, sem þvergirðir fyrir, að ríkið geti fengið rjett sinn og gert þær kröfur til rennandi vatns, sem það kynni að hafa.

Hefi jeg aldrei verið svo rogginn af skoðun minni, að jeg vildi halda henni fram yfir dómstólana, aldrei farið fram á annað en að æðsti dómstóll færði rok fyrir og skæri úr því, hvort einstaklingarnir væru eigendur rennandi vatns eða ekki. Sýnist svo, sem betur hefði farið á, að stjórnin hefði látið þetta vera jafnvafasamt áfram, heldur en að halda þannig fram einstaklingsrjettinum til vatnsins.

Það hefir komið fyrir í öðrum löndum, þar sem vatnalög hafa legið fyrir, og stjórnin lagt fram frumvarp þess efnis, að ríkið hefði eignarrjettinn, að þingið hefir svarað: Vjer eigum að semja lög um það, hvernig vatnið skuli nota, en hver sje eigandi þess, það er ekki vort að skera úr, heldur dómstólanna. Þannig hefir farið á Saxlandi.

En vel mætti hjer svo fara, þegar stjórnin sýnir þann skörungshátt, að ákveða eignarrjettinn, að eins væri farið að frá þingsins hálfu, og ekki síst þegar svo mætti virðast, sem stjórninni hefði ekki farist sem best að gæta hagsmuna ríkisins.

Má þar einnig í því sambandi minna á sænsku stjórnina, sem aldrei lætur útkljá þesskonar mál nema eftir úrskurði dómstólanna, og kemur það illa heim við stjórnina hjer og þá aðra, sem vilja fleygja í menn þeim eignum eða rjettindum, sem þeir eiga ekkert tilkall til samkvæmt lögum.

Annars get jeg fallist á rökstuddu dagskrána, vegna þess að menn hafa ekki getað kynt sjer málið nógu rækilega frá báðum hliðum, þegar nefndin klofnaði, enda eigi svo, að unnið sje sem skyldi að útbreiðslu nefndarálitsins meðal almennings, sem reynsla mín í Dalasýslu ber vott um.

Svo er mál með vexti, að stjórnin lofaði, fyrir tilmæli mín, að flýta útsendingu nefndarálitsins og senda það með pósti um miðjan september. En þegar jeg kom þangað vestur til viðtals við kjósendur mína í október, mánuði seinna, var ekkert nefndarálit þangað komið. Hafði þá svo farið, að það var geymt í heilan mánuð, þar til skipsferð fjell til Stykkishólms — líklega til þess að staðfesta það, sem póststjórnin sagði á síðasta þingi, að aldrei færi nema hálft koffort til Dala. — Mundu menn því hafa verið næsta ófróðir um það mál, ef jeg hefði eigi slegið varnagla við og sent þangað nokkur eintök.

En það, sem hefir komið fyrir á einum stað, getur einnig átt sjer stað víðar, að útsendingunni hafi ekki verið flýtt eins og hægt hefði verið.

Enn fremur má þess minnast, að nefndarálit meiri hl. er mikil bók, sem vandlega þarf að lesast, til þess að hafa fult gagn af henni. Og þegar svo þar við bætist, að upplagið er of lítið, þá er ástæða til að minnast á, hvort eigi væri heppilegra að gera útdrátt úr því og senda minni útgáfu í mörgum eintökum, svo að almenningur fái tækifæri til þess að kynna sjer málið sem best. Tel jeg það rjettari aðferð gagnvart landsmönnum, að vinna að því, að þeir fái þekkingu á málinu, heldur en að flana að því, að koma einhverju í framkvæmd, þegar um jafnstórt og þýðingarmikið framtíðarmál er að ræða sem þetta.

Enn fremur býst jeg við því, að á meðal þingmanna sjeu ýmsir, sem ekki hafa kynt sjer málið nógu vel til þess að gefa úrslitaatkvæði sitt. Jeg var sjálfur í nefndinni, og er því vel kunnugt um það, hvern tíma og fyrirhöfn það kostar að komast að fastri niðurstöðu.

Að vísu má taka það til greina, að þeir kunna að vera mjer gáfaðri, en þó varla svo, sem þessum tíma munar.

Greiði því dagskránni atkv. mitt.