14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (976)

2. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg ætla að eins að drepa á eitt atriði í ræðu hv. þm. Dala. (B. J.). Hann spurðist fyrir um það, hvers vegna engar rannsóknir hefðu farið fram, og er þar því til að svara, sem nú skal tekið fram.

Þegar síðasta þingi var lokið, var komið fram á haust, vetur fyrir dyrum, og gátu þá engar rannsóknir fram farið, því þær eru mjög bundnar staðháttum og árstíðum. Hjer á landi eru heldur engir þeir menn, sem færir væru um að standa fyrir þessum rannsóknum. Um það atriði, að fá hingað lærða og reynda menn til rannsókna, hefi jeg fátt eitt að segja. Stjórnin hefir ekkert gert í því máli; tíminn stuttur, ráðherraskifti í vændum, og því skaðlaust, að þetta, sem og annað, sem að vatnamálum lýtur, biði væntanlegs atvinnumálaráðherra.