14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (977)

2. mál, vatnalög

Gunnar Sigurðsson:

Jeg er að mestu sammála hv. þm. Ak. (M. K.) og hv. 1. þm. Árn. (E. E.), og þarf því ekki að endurtaka það, sem þeir hafa sagt. En það eru tilmæli mín til hv. þm. N.- Ísf. (S. St.), að hann taki aftur dagskrá þá, sem hann hefir borið hjer fram. Jeg sje ekki, að málið geti haft neitt ilt af því, að vera rætt hjer og íhugað á þingi. Það er enn mjög óljóst fyrir mönnum, og gæti meðferð þingsins orðið til að skýra það.

Það hefir verið talað um ótta í þessu máli, ótta við það, að málinu verði hroðað af í flaustri og með lítilli fyrirhyggju. Jeg hefi lítið orðið var við þennan ótta, en eflaust er hann samt til. En jeg veit um annan ótta. Jeg veit, að margir eru hræddir um, að þetta mál, sem svo mörg önnur, verði kæft með drætti og skriffinsku. Það er sá ótti, sem er á rökum bygður. Meðferð fyrri þinga á málinu sýnir það ljóslega; alt hefir lent í ákvörðunarlausu hringli, skriffinsku og drætti, og til þess eru vítin að varast þau fyrir þetta þing, að það geri sig ekki sekt í því sama. Ef þingnefnd yrði til þess að draga skýrar línur í þessu máli, skera niður aukaatriðin og benda á kjarnann, þá væri vel. Jeg vil því endurtaka þau tilmæli mín, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) taki dagskrána aftur. Því sje nokkurt mál þess vert að vera rætt á þessu aukaþingi, þá er það þetta mál.