14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (978)

2. mál, vatnalög

Gísli Sveinsson:

Við skildumst svo við þetta mál á síðasta þingi, að því var öllu vísað til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá. Það var gert af ásettu ráði og með ljósri vitund um það öngþveiti, sem málið var komið í; flækjan var orðin flóknari en svo, að úr henni yrði greitt. Þótt jeg ætti talsverðan hlut í þessu máli á síðasta þingi, og hefði, þar sem jeg var frsm. meiri hl. nefndarinnar hjer í hv deild, orðið að kynna mjer það í öllum atriðum, þá fjellst jeg þó á dagskrána. Mjer var það ljóst, að þrátt fyrir öll þau kynni, sem nefndin hafði af málinu, þá höfðu þeir þm., sem fyrir utan stóðu, ekki gert sjer málið nægilega ljóst til þess að taka ákvörðun um það. Við því var heldur varla að búast, því að málið var mikið fyrirferðar, og hv. þm. vantaði tæki og tíma til að athuga það sem skyldi. Það getur hver og einn sagt sjer það sjálfur, að utan þings muni þekkingin á málinu yfirleitt mun minni. Þjóðinni er algerlega ómögulegt að taka þegar í stað nokkra ákvörðun í málinu, og ef eitthvað yrði afráðið nú, þá væri það gert að þjóðinni forspurðri eða sama sem fornspurðri.

En þó að þannig sje ásatt um marga háttv. þm. og þjóðina í heild sinni, þá verður ekki sagt, að málið skorti allan undirbúning. Milliþinganefndin starfaði lengi að þessu máli enda liggur mikið eftir hana að vöxtum til. Á síðasta þingi fjallaði 12 manna samvinnunefnd beggja deilda um málið og vann að því nær allan þingtímann. Sú nefnd bar fram till. í málinu, miðlunartill., og var það hennar skoðun, að óhætt væri að samþykkja þær þá, en þó varð það úr, að málinu var vísað til stjórnarinnar, og átti hún að vinna úr öllu því, sem fram var komið, eitthvað, sem fært þætti að leggja fyrir þing.

Menn vissu, að von var á þessu aukaþingi, vissu hve skamt mundi líða milli þinga, og að hlutverk þessa þings yrði það eitt, að afgreiða stjórnarskrána og mynda stjórn. Enginn bjóst víst við því, að fossamálin kæmu nú til sögunnar, enda enginn tími til að vinna úr þeim svo að gagni yrði. Þetta hefir líka farið svo. Hæstv. landsstjórn hefir nú kastað málinu ókörruðu til þingsins aftur, og er það illa farið. Hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) ber það fyrir, að hann hafi viljað gefa þinginu tækifæri til að ræða málið, ef því sýndist svo, en það hefði hæstv. ráðherra (S. J.) átt að geta sagt sjer sjálfur, að málið hafði hjer ekkert að gera á þessu stigi. Það er sami grauturinn nú og þá, og ástæðulaust að láta þingið hræra í því enn á ný. Stjórnin hefir alls ekki gert það, sem henni bar að gera, en það var að undirbúa málið áður en hún legði það fram fyrir þing. Jeg vil ekki álasa stjórninni fyrir það, að hún hefir enn ekki undirbúið málið, til þess hefir enginn tími verið, en það var óþarfi af henni og í alla staði ótilhlýðilegt að fleygja nú í þingið þeim skófum, sem flestum þótti viðbrendastar á síðasta þingi.

Hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) viðurkennir það, að tími hafi ekki unnist til undirbúnings, og hann er ekki frá því, að fallast á þá dagskrá, sem fram er komin. Mig furðar á því, að þeir hv. þm., sem heldur virðast hallast til þeirrar hliðar, sem hæstv. ráðh. (S. J.) er, skuli nú snúast á móti honum. Reyndar er þetta ekkert nýtt, því hæstv. ráðherra (S. J.) hefir orðið að reyna það áður, þegar hann vegna sannfæringar sinnar og samvisku hefir tekið ákveðna afstöðu til mála, eða fylgt þeim fast fram, að þá hafa þessar stoðir hans þráfaldlega fallið frá honum.

Það hefir verið um það talað, hvort þessu máli skuli varpað til nefndar eða ekki. Ef svo verður gert, þá er ekki vafi á því, að þingið lengist að miklum mun, því ekki mun því slitið meðan nefndir starfa. Nefndin hlyti að fá einræði, að kalla mætti, yfir gangi málsins, og væri ekki hægt að varna því, að allir hlutar kæmu þar fram. Hún starfaði eins lengi og henni þætti henta, klofnaði í marga parta, sendi kynstrin öll af till. og nál., og alt yrði þetta gert til að losna við „skriffinsku“. Það yrði ekki hjá því komist, að þing stæði fram á sumar, ef sýna ætti þessu máli alla þá „skriffinsku“ og „alúð“, sem um er talað. Háttv. þm. kemur saman um það, að þingið eigi að vera stutt að þessu sinni. Stjórnarskráin og stjórnarmyndunin eru einu verkin, skylduverkin, sem fyrir liggja. Annað er hjer ekki að gera, nema það sem upp kynni að koma óhjákvæmilegt. Það er með öllu meiningarlaust að hanga fram á sumar yfir málum, sem ekki verða afgreidd og ekkert er upp úr að hafa að svo komnu máli.

Undirbúning getur þingnefnd ekki veitt málinu, eins og sakir standa. Áður en það á að koma aftur til þingsins kasta, verður að fara fram hlutlaus rannsókn á því, sjerfræðilegar athuganir og vendileg vinsun úr því, sem fram er komið. Á þessu á svo að byggja þann grundvöll sem þingið getur starfað í. Þetta er verk stjórnarinnar, og á málið því enn þá best heima hjá henni. Jeg býst við, að það sje þar vel geymt og betur komið en hjer, hvað sem um vinnubrögðin verður.

Mig furðar á því, að hæstv. landsstjórn, og þá aðallega hæstv. forsætisráðh. (J. M.), skuli ekki hafa lagt áherslu á að hafa málið betur undirbúið, ef það á annað borð átti þó að koma inn á þing nú. Það hefir verið valið það frv. frá þinginu í fyrra, sem verst var að formi til, hrærigrautur frá upphafi til enda. Miðlunarfrv. þingnefndarinnar, eða meiri hl. frv., því eftir því var hitt sniðið að forminu til, var mun betra að frágangi og niðurskipun, enda starfaði að því maður, sem hafði tekniska þekkingu á málinu, sem sje verkfræðingur. Stjórnin hefði átt að halda sjer við það frv., að minsta kosti taka þá teknisku grind, því hún var í alla staði viðunandi.

Það hefði ekki átt að vera mikill vandi að breyta frv. í þá átt, er stjórnin vildi, setja í rammann þær efnismyndir, sem henni þótti bestar. Í stað þess að fara þessa sjálfsögðu leið hefir hæstv. landsstjórn valið þann rammann, sem hornskakkastur var og mest gallaður að öllu leyti. Í frv. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem hjer er nú komið fram aftur, jeg á við sjerleyfisfrv., ægði öllu saman, þar var ómögulegt að átta sig á neinu, og jeg hjelt, að menn gætu orðið sammála um það, án tillits til skoðana í fossam., að það frv. væri óhafandi að formi til. Það gat heldur enginn búist við öðru, þar sem hv. þm. (Sv. Ó.) vantaði alveg tekniska þekkingu á málinu og engin von til, að hann gæti aflað sjer hennar í fljótu bragði. Jeg verð því að vera þeirrar skoðunar, að það beri að vísa þessu frv. frá og láta málið bíða næsta reglulegs Alþingis. Jeg mun því greiða atkvæði með þeirri dagskrá, sem fram er komin.

Háttv. þm. Ak. (M. K.), og þeir hv. þm., sem eftir honum hafa japlað, hafa kallað aðferðina „fruntalega“. Það er alleinkennilegt, að hv. þm. (M. K.), sem gerir gælur við hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.), skuli viðhafa þessi orð um aðferð, sem hæstv. ráðh. (S. J.) í rauninni hefir fallist á. (Atvinnumála- ráðh.: Jeg hefi ekki orðið var við þær gælur). Það er ef til vill ekki rjett að segja, að hv. þm. (M. K.) hafi gert sjer gælur við hæstv. ráðh., heldur við þá, sem í kring um, hann standa. En hvað sem því liður, þá eru þessi orð fruntalegri en aðferðin, og hafa þau eflaust hrotið af vörum hv. þm. (M. K.) í hita, enda stundum nokkuð laus á kostunum í orði. En það er misskilningur, að aðferðin sje fruntaleg. Dagskráin er hógvær og kurteist orðuð, enda viðurkend af hæstv. ráðherra, sem hlut á að máli. Hann á mest undir því, hvernig þessu frv. hans verður tekið.

Nokkrir hv. þm. hafa viljað láta málið ganga til nefndar, en vilja þó enga ákvörðun láta taka í því á þessu þingi. Þeir byggja á þeim misskilningi, að málið hafi gott af slíku. Það hefir verið margtekið fram, að þingnefnd getur engan undirbúning veitt, frekar en orðið er, engar upplýsingar gefið, ekkert gert fyrir málið. Þetta hljóta menn að skilja. En hjer tala nýir menn; þeir vilja fá að grauta í málinu, þeir líka, því ekki það?

Við hinir höfum fengið að grauta í því, þeir þykjast órjetti beittir, þeim finst ef til vill ekkert gaman að sitja á þingi, nema þeir fái að sýna visku sína í fossamálunum, og svo á að loka þá úti með einni dagskrá! Það er von, að þeir berjist á móti henni. En veri þeir vissir, málið kemur á sínum tíma til þingsins.

Eins ber enn að gæta í þessu máli, og það er þjóðin. Hún hefir ekki látið skoðun sína í ljós, hún hefir ekki verið spurð. Hún hefir heldur ekki enn skilyrði til að svara, henni er málið ekki svo kunnugt, að hún geti vitað, hvað hún vill. Tíminn, sem líður til næsta reglulegs þings, á að nota til þess að undirbúa málið og skýra það fyrir þjóðinni meðal annars. Það hefir verið talað um „ótta þjóðarinnar“ um það, að þessu máli verði óheppilega til lykta ráðið. Jeg veit, að þessi ótti er til, þó sumstaðar sje hann lítill eða enginn. Það má um það deila, á hversu gildum rökum hann sje bygður, en um hitt verður ekki deilt, að sá ótti er rjettmætur og heppilegur, sem hnígur að því, að þessu máli verði ekki flaustrað af áður en þjóðin veit, hvað um er að vera. Skoðanir manna eru mjög skiftar, og er margt, sem fram er komið, mjög athugavert, og fleira sem getur orkað tvímælis. Það er því síður en svo heppilegt að hrapa að neinu nú, og dráttur gerir málinu ekkert til, að minsta kosti ekkert ilt. Það hefir enginn málsmetandi maður meðal þjóðarinnar, mjer vitanlega, ætlast til þess, að frv. þessa efnis yrði lagt fyrir þetta þing. Það lítur út fyrir, að hæstv. landsstjórn hafi gert það óviljandi, og er þá ekki ástæða til, að þingið fari að grauta meira með það að þessu sinni.