14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (981)

2. mál, vatnalög

Sveinn Björnsson:

Það, sem kom mjer til þess að taka til máls, voru orð hv. 1. þm. Árn. (E. E.). Hann sagði, að þeir einir greiddu atkv. með hinni rökstuddu dagskrá, sem engar framkvæmdir vildu í máli þessu. Það sýnist vera skoðun hv. þm. (E. E.), að ekki sje hægt að sýna máli þessu alúð á annan hátt en að kjósa í það nefnd Jeg vil, fyrir hönd þessara manna, mótmæla ummælum þessum, og er algerlega gagnstæðrar skoðunar. Jeg álít, að það mundi að eins tefja fyrir málinu að setja það í nefnd. Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) mintist á ótta og sagði, að það væri óttinn við dráttinn og skriffinsku, sem setti beyg í menn í þessu máli. Sá ótti greip mig, fyrst þegar jeg sá þessa bók (nefndarálitin), og get jeg vel ímyndað mjer, að margur kjósandi eigi fult í fangi með að átta sig á málinu við lestur þessarar miklu bókar. Því meiri skriffinska, því erfiðara verður fyrir kjósendur að átta sig. Að fara nú að setja málið í nefnd er sama sem að auka skriffinskuna og gera mönnum enn þá erfiðara að kynnast kjarna málsins. Mjer finst frekari ástæða til þess, að gerður sje útdráttur, handhægur og skilglöggur útdráttur, úr þessu mikla nefndaráliti; það mundi auka skilning manna á málinu og verða því til margfalt meiri blessunar en þótt menn færu að setja það í einhverja pappírsnefnd og bæta við enn einu skriffinskunefndaráliti. Það hefir verið tekið fram, að þau störf, sem vanti enn til undirbúnings málinu, liggi síst best við starfi þingnefndar, og því er jeg algerlega samþykkur. Jeg vil sýna málinu fullkomlega alúð, en það vantar enn þá rannsóknir, sem geta leiðbeint mönnum og komið mönnum í skilning um, hvernig þetta mál liggur fyrir „praktiskt“. Áður en þetta er fengið getur engin stjórn, ekkert þing, og eigi heldur kjósendur, tekið afstöðu í málinu.

Jeg vil eindregið, að rannsóknir sjeu gerðar, og legg áherslu á það

Hv. 1. þm. S.-Þ. (P. J.) ljet það í ljós, að það væri verkefni fyrir þingnefnd að lesa sig inn í málið. Getur verið. En ekki virðist mjer heppilegt að lengja þingið til þess að nota þingtímann eins og nokkurskonar upplestrarleyfi fyrir þá nefnd. Hins vegar tel jeg eðlilegt, að kosin sje sjerstök nefnd til að athuga tilboð þau, um afhendingu í hendur landsstjórnarinnar á Sogsfossunum, sem stjórninni munu hafa borist.

Jeg held, að það væri æskilegast að þingið reyndi að ljúka sem fyrst störfum sínum, og álít jeg, að á því hvíli engin skylda að steypa sjer út í málalengingar, sem ekkert er upp úr að hafa, af einhverri fordild. Jeg get því greitt rökstuddu dagskránni atkvæði mitt og er sammála hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.), er hann sagði, að hann áliti, að stjórnin og hv. deild gæti vel sætt sig við þessa dagskrá.